Fótbolti

Moyes: Getum öll lært af Íslandi | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Moyes, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United og Everton, verður einn af fyrirlesurum á ráðstefnunni „Business and football“ sem fer fram í Hörpu 11. maí næstkomandi.

Moyes hefur sterk tengsl við Ísland en Moyes-fjölskyldan heldur upp á 80 ára afmæli föður hans á Íslandi um þessar mundir.

Moyes gaf sér líka tíma til að ræða um árangur íslenska fótboltalandsliðsins við Tómas Þór Þórðarson, blaðamann á Fréttablaðinu og Vísi.

„Þetta er ótrúlegur árangur og framfarirnar eru gífurlegar. Þetta þarf að gerast í litlum skrefum,“ sagði Moyes um íslenska fótboltaævintýrið.

„Þegar ég keyrði til Reykjavíkur sá ég allar fótboltahallirnar og aðstöðuna og hvernig Ísland hefur styrkt innviðina sem hjálpar ungum fótboltamönnum að bæta sig. Þegar ég kom hingað fyrir 20 árum var bara hægt að spila fótbolta í 2-3 mánuði á ári vegna veðurfarsins.

„Við getum öll lært af Íslandi og það er frábært að íslenska liðið verði með á EM í sumar.“

Þrátt fyrir frábæran árangur á undanförnum árum segir Moyes að stuðningsmenn íslenska liðsins verði að stilla væntingunum fyrir EM í Frakklandi í hóf.

„Ekki búast við of miklu og ekki setja of mikla pressu á þjálfarann og liðið,“ sagði Moyes varkár.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×