Körfubolti

Indiana var sekúndubroti frá framlengingu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
DeMar DeRozan og Paul George voru langbestir í nótt.
DeMar DeRozan og Paul George voru langbestir í nótt. vísir/getty
Toronto Raptors og Atlanta Hawks komust í nótt í 3-2 í einvígum sínum í átta liða úrslitum austurdeildar NBA í nótt og þurfa aðeins einn sigur til viðbótar til að komast í undanúrslitin.

Toronto vann sigur á Indiana Pacers á heimavelli, 102-99, þar sem dramatíkin var svakaleg í restina en Indiana skoraði flautukörfu sem síðar var dæmd ógild.

Gestirnir fengu innkast undir körfunni þegar nokkrar sekúndur voru eftir og náðu að koma boltanum á Solomon Hill sem var dauðafrír þegar innan við sekúnda var eftir. Hill setti niður þriggja stiga skot og fögnuðu Indiana-menn vel og innilega enda búnir að tryggja sér framlengingu. Eða svo héldu þeir.

Dómararnir skoðuðu atvikið betur og kom í ljós að boltinn var enn við fingurbjörg Hill þegar klukkan rann út. Leik lokið og dramatískur Toronto-sigur í höfn.

Atvikið má sjá í spilaranum hér að neðan.

DeMar DeRozan skoraði 34 stig fyrir Toronto en Paul George gerði enn betur fyrir Indiana og skoraði 39 stig, tók átta fráköst og gaf átta stosðendingar.

Atlanta Hawks þurfti ekki að hafa mikið fyrir 110-83 sigri á Boston á heimavelli sínum í nótt, en grunninn að sigrinum lagði liðið í öðrum og þriðja leikhluta sem það vann samanlagt, 74-42.

Mike Scott var stigahæstur hjá Atlanta en hann spilaði 22 mínútur af bekknum og skoraði 17 stig. Kent Bazemore og Jeff Teage skoruðu 16 stig fyrir Atlanta en Isiah Thomas var stigahæstur Boston með 15 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×