Körfubolti

Kobe Bryant gerir grín að gamla Kobe í nýrri Apple-auglýsingu | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/Getty
Nú fer hver að verða síðastur að sjá Kobe Bryant spila í NBA-deildinni í körfubolta en Kobe spilaði þriðja síðasta leikinn á ferli sínum í nótt.

Kobe átti fínan leik og skoraði 35 stig á 27 mínútum á móti Houston Rockets en það kom þó ekki í veg fyrir 20 stiga tap. Lokaleikir Kobe Bryant verða á móti Oklahoma City Thunder í kvöld og Utah Jazz á miðvikudagskvöldið.

Kobe Bryant hefur fyrir löngu sætt sig við að þessi kveðjuferð hans snúist um virðingu fólks fyrir hans ferli og hans afrekum en ekki um að safna sigurleikjum sem hafa verið að skornum skammti hjá Lakers á þessari leiktíð.

Kobe Bryant var líka alveg tilbúinn að gera grín að sjálfum sér í nýrri auglýsingu fyrir Apple TV sem er eitthvað sem erfitt var að sjá fyrir sér fyrir nokkrum árum.

Auglýsingin hjá Apple heitir „Father Time" upp á enska tungu eða „Árin hafa liðið".

Á auglýsingunni sést Kobe Bryant tala við Michael B. Jordan sem á að fara að leika Kobe í skáldaðri mynd um körfuboltaferil Kobe.

Kobe Bryant kallar fram myndband með sér á Apple TV þegar hann var ungur og nánast óstöðvandi inn á vellinum en Michael B. Jordan segir honum þá frá því að myndin eigi að ná yfir allan hans feril.

Michael B. Jordan segist eiga að leika Kobe Bryant þegar hann er orðinn „gamall" og hann muni nota andlitsfarða og aðra aukahluti til að ná því.

Að því sögðu þá kallar Michael B. Jordan fram myndina The Curious Case of Benjamin Button á Apple TV. KObe Bryant er ekki sáttur og vísar Jordan á dyr.

Það er hægt að sjá þessa auglýsingu hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×