Fótbolti

Lars og Heimir: Ekki útilokað að vinna EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fara strákarnir okkar alla leið í Frakklandi?
Fara strákarnir okkar alla leið í Frakklandi? vísir/afp
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar karla í fótbolta, útiloka ekki að strákarnir okkar geti staðið uppi sem sigurvegarar á EM 2016 í Frakklandi í sumar.

Landsliðsþjálfaratvíeykið sat fyrir svörum á fótbolti.net þar sem lesendur síðunnar fengu að spyrja þá spjörunum úr og ein spurningin tengdist þessu.

„Getur Ísland afrekað það sama og Grikkland gerði á EM 2004 þegar þeir fóru alla leið?“ spyr Hinrik Flosi Gunnarsson, en Grikkland varð afskaplega óvænt Evrópumeistari í Portúgal árið 2004 eftir sigur á heimamönnum í úrslitaleik.

Grikkir voru ekki með margar stjörnur í liðinu en reyndan þjálfara, mikla liðsheild, frábæran varnarleik og sterk föst leikatriði. Allt atriði sem einkenna íslenska landsliðið.

„Eins og ég og Heimir segjum við leikmenn þá er alltaf raunhæfur möguleiki á að vinna. Erfiða spurningin er hversu stór möguleikinn er. Auðvitað er það ekki stór möguleiki en hvort að það séu 10 prósent, 50 prósent líkur eða hvað, við getum rætt það í langan tíma. Við eigum samt alltaf möguleika,“ segir Lars og Heimir tekur undir orð Svíans:

„Það sem hefur gerst einu sinni getur gerst aftur,“ segir Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×