Íslenski boltinn

KA að kaupa Almarr frá KR

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Almarr í baráttunni gegn Fylki á síðustu leikíð.
Almarr í baráttunni gegn Fylki á síðustu leikíð. vísir/anton brink
KA er búið að ganga frá kaupum á Almarri Ormarssyni, leikmanni Pepsi-deildar liðs KR, en hann verður kynntur til leiks á blaðamannafundi fyrir norðan í dag klukkan 17.00.

Þetta kemur fram á Fótbolti.net, en Almarr, sem hefur spilað undanfarin tvö ár með KR í Pepsi-deildinni var áður á mála hjá Fram. KA þarf að kaupa Almarr frá vestubæjarliðinu þar sem hann er með samning við KR sem gildir út komandi tímabil.

Almarr þekkir vel til hjá KA, en hann er fæddur og uppalinn á Akureyri og spilaði með liðinu í 1. deildinni frá 2005-2007 áður en frændi hans Þorvaldur Örlygsson fékk hann til sín í Fram.

Almarr kom við sögu í öllum 22 leikjum KR í deildinni í fyrra og skoraði þrjú mörk, en á tveimur árum spilaði hann 39 deildar leiki og tíu bikarleiki fyrir KR og skoraði í þeim níu mörk.

Hann varð bikarmeistari með KR 2014 þegar liðið vann Keflavík, 2-1, í úrslitaleik og einnig árið áður með Fram þegar það bar sigurorð af Stjörnunni eftir vítaspyrnukeppni.

KA-menn ætla sér svo sannarlega upp úr 1. deildinni í sumar. Liðið er nú þegar búið að fá til sín Hallgrím Mar Steingrímsson frá Víkingi en er reyndar búið að missa U21 árs landsliðsmanninn Ævar Inga Jóhannesson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×