Fótbolti

Heimir: Læri ekkert meira á að vera tvö ár með Lars í viðbót

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafa náð frábærum árangri með íslenska liðið.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafa náð frábærum árangri með íslenska liðið. vísir/vilhelm
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta, vill ólmur taka einn við liðinu eftir Evrópumótið eins og til stóð.

Eyjamaðurinn segir frá þessu í viðtali við Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, en þegar Heimir samdi um að vera áfram fram yfir Evrópumótið stóð til að Lars Lagerbäck myndi hætta og Heimir tæki einn við liðinu.

Nú vill KSÍ halda Lars, að minnsta kosti fram yfir undankeppni HM 2018, og er Svíinn með samningstilboð frá knattspyrnusambandinu eins og Geir Þorsteinsson greindi frá í september á síðasta ári.

„Ég hef sagt, bæði í gamni og alvöru, að mér fannst ég alveg nógu góður og tilbúinn að taka við landsliðinu á þessum tíma þegar Geir hringdi í mig en eftir að hafa verið í tvö ár með Lars þá var ég alveg sannfærður um að ég var það ekki. Ég hefði gert mistök sem Lars hafði reynslu til að gera ekki og hef lært heilmikið af kallinum,“ segir Heimir.

Hann er ekki viss um að hann vilji vera áfram hjá landsliðinu ef Lars stígur ekki til hliðar. Heimir segist þó hafa fullan skilning á að KSÍ vilji ekki rugga bátnum þegar svona vel gengur.

„Ég mun bara ræða það [framtíð sína, innsk. blm] við mína yfirmenn þegar þar að kemur. Ég hugsa að ég læri ekkert meira á að vera tvö ár í viðbót með Lars en ég ítreka að ég skil mjög vel að KSÍ vilji ekki breyta neinu,“ segir Heimir Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×