Skoðun

Hverju andar þú að þér?

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar
Heilnæmt andrúmsloft er sannarlega mikilvæg auðlind og mikilvæg undirstaða góðrar heilsu og velferðar. Áhrif mengaðs andrúmslofts á heilsu koma sífellt betur í ljós og eru ákveðnir hópar taldir viðkvæmari en aðrir. Til dæmis börn og einstaklingar með astma, lungnasjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma og aðra undirliggjandi sjúkdóma. Aukin loftmengun er einn af fylgifiskum þéttbýlismyndunar og því hefur Reykjavíkurborg tekið alvarlega í gegnum tíðina og mælt loftgæði utandyra reglulega síðan 1986. Frá aldamótum hafa borgarbúar getað fylgst með niðurstöðum svo að segja á rauntíma. Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hefur sett saman viðbragðsáætlun um loftgæði sem borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi og viðbragðsteymi borgarinnar bregst við þegar þarf samkvæmt henni. Í því felst meðal annars að senda út tilkynningar ef loftgæði eru líkleg til að fara yfir heilsuverndarmörk og ákveða til hvaða mótvægisaðgerða er gripið hverju sinni.

Á nýafstöðnu málþingi Reykjavíkurborgar um loftgæði kom fram að við búum það vel að loftgæði í Reykjavík eru almennt góð miðað við þau heilsuverndarmörk sem sett eru, en þau efni sem líklegust eru til að fara yfir mörkin eru köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og svifryk (PM10). Við erum þó meðvituð um að í raun er lítið vitað um áhrif loftmengunar á heilsu en gerðar eru stöðugt fleiri rannsóknir sem munu eflaust hafa áhrif á heilsuverndarmörk í framtíðinni og ef til vill einnig hvaða efni við mælum.

Sem dæmi má nefna að losun brennisteinsvetnis (H2S) hefur margfaldast með fjölgun virkjana og þrátt fyrir að styrkur þess sé undir núverandi heilsuverndarmörkum þá vantar rannsóknir á langtímaáhrifum brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu fólks.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með rannsóknum og breyta viðmiðum og viðbragðsáætlunum eftir því sem besta þekking segir til um hverju sinni.

Borgarstjórn er einnig meðvituð um að margt af okkar verkum hefur áhrif á loftgæði og þar með lýðheilsu. Þar má nefna skipulag borgarinnar, gatnahreinsun og hálkuvörn, trjágróður og umferðarstýringu. Sumt getum við ekki haft áhrif á eins og við vorum rækilega minnt á meðan við fylgdumst grannt með brennisteinsdíoxíðsmengun (SO2) frá eldgosinu í Holuhrauni sem eins og allir vita hafði mikil áhrif á loftgæði á landinu. Með því að velja vistvænan samgöngumáta, keyra hægar, sleppa nagladekkjunum eða hlúa að gróðri í kringum okkur getum við hins vegar öll lagt okkar af mörkum til þess að bæta loftgæði okkar. Allt bætir það loftgæði okkar og líðan.




Skoðun

Sjá meira


×