Hundruð þúsunda eyddu nóttinni undir berum himni af ótta við eftirskjálfta. Einn þeirra sem reið yfir í gær mældist 6,7 að stærð. Miklar rigningar hafa gert fólki enn erfiðara fyrir. Talið er víst að tala látinna eigi eftir að hækka. Margir eru slasaðir og í brýnni þörf fyrir læknisaðstoð. Einnig er skortur á öllum helstu nauðsynjum, matvælum, aðgangi að hreinu vatni og skjóli.
Nepölsk stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á þeim svæðum sem urðu verst úti og hafa óskað eftir aðstoð frá alþjóðasamfélaginu.

„Jarðskjálftar eru alltaf þannig að hver mínúta og hver klukkutími skiptir máli varðandi það að bjarga fólki úr rústum. Okkar hlutverk verður að tryggja góð fjarskipti á svæðinu, það er lykilatriði til þess að samhæfa björgunaraðgerðir,“ segir Gísli Rafn sem hefur mikla reynslu af björgunaraðgerðum eftir jarðskjálfta og náttúruhamfarir.
Þetta er fjórði stóri jarðskjálftinn þar sem hann hefur hjálpað á vettvangi og mikið verk bíður hans því rafmagns- og farsímakerfi liggja niðri á mörgum svæðum.
Hann notaði tímann meðan hann beið eftir fluginu til Katmandú til að undirbúa sig andlega undir starfið. „Það er alltaf erfitt að koma á staði þar sem er mikið af fólki sem á um sárt að binda. En að gera gagn þar sem fólk þarf hjálp, það drífur mann áfram.“
Hann segir erfitt verkefni fram undan og býst við slæmum aðstæðum. „Þetta eru mörg lítil þorp sem liggja í dölum í fjalllendi. Þorpin eru í rúst og vegir eru farnir í sundur, bæði vegna jarðskjálftans og vegna skriðufalla. Það verður mjög erfitt að koma hjálpargögnum og björgunarsveitum á vettvang.“
Fjölmargar hjálparstofnanir hafa svarað kallinu og hafið neyðarsöfnun fyrir íbúa í Nepal, meðal annars Rauði krossinn og UNICEF. Að minnsta kosti 940 þúsund börn á verst leiknu svæðunum eftir jarðskjálftann í Nepal þurfa á brýnni aðstoð að halda samkvæmt UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Jón Brynjar Birgisson er sviðsstjóri alþjóðlegra björgunaraðgerða hjá Rauða krossinum og hefur fundað um næstu skref hér á landi en fyrir liggur að verða við alþjóðlegri hjálparbeiðni. Um tvö hundruð Íslendingar eru þjálfaðir sendifulltrúar Rauða Krossins, flestir úr heilbrigðisgeiranum. „Við munum leggja til starfsfólk í neyðarsveitirnar. Við munum líklega senda um þrjátíu fulltrúa. Það er mikið verk fram undan, nú einbeitum við okkur að aðhlynningu slasaðra, því að dreifa hjálpargögnum og veita áfallahjálp, svo á eftir fer samfélagsleg uppbygging og aðstoð. Þetta mun taka tíma.“