Skoðun

Grjótkastara svarað

Gauti Kristmannsson skrifar

Ósiður einn hjá götustrákum var hér áður fyrr að kasta grjóti í fólk. Hann er sem betur fer að mestu aflagður, en tíðkast þó enn í yfirfærðu formi í stöku fjölmiðli. Einn er sá götustrákur á íslensku blaði sem er þó svo heiðarlegur að hann gengst eiginlega við grjótkasti sínu með heitinu á dálki sínum þótt ekki hafi hann nægt hugrekki til að koma fram undir nafni.



Í Staksteinum Morgunblaðsins 17. febrúar varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá einn eða tvo steina í mína átt, þótt reyndar hafi megnið af þeim texta verið eftir Pál Vilhjálmsson bloggara en höfundur Staksteina virðist hafa gert hann að leiðtoga lífs síns, svo oft vitnar hann til þess djúphygla manns sem kunnur er fyrir dómgreind sína, ekki síst þegar hann fjallar um annað fólk. Yfirskriftin er „Þýðingarlaust mál“ sem höfundi finnst þó nægilega þýðingarmikið til að fjalla um það. Þar er vísað til hugmynda Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra um hvort ekki væri „hægt að nota mildara orðalag við þýðingu Evróputilskipana“ og ollu nokkrum óróa meðal þýðenda og fleiri þar sem gefið var í skyn að lög þau og reglur sem við tökum upp í gegnum EES-samninginn þyrfti að þýða samkvæmt einhverri pólitískri hugmyndafræði.



Birgir Ármannsson alþingismaður tekur undir með Sigrúnu í Morgunblaðinu, en bendir á að „svigrúmið“, sem fyrir hendi er við lögfestingu tilskipana, sé ekki þýðenda heldur þingmanna sjálfra. Það er rétt hjá honum, en gagnrýni Sigrúnar snerist að þýðingunum, þegar hún hefði fremur átt að lasta þingið og ráðuneytin sem eiga að laga þessar tilskipanir að íslenskum veruleika. Grjótkastaranum var vitanlega fullkunnugt um þetta eins og sést af lokaorðum dálksins, en hann kastaði grjótinu samt því staðreyndir máls skipta hann engu máli þegar hann er á móti einhverju málefni eða mönnum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×