Fótbolti

Guðjón Þórðar, Atli Eðvalds og Óli Þórðar á óskalista næstbesta liðsins í Færeyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Eðvaldsson, Guðjón Þórðarson og Ólafur Þórðarson.
Atli Eðvaldsson, Guðjón Þórðarson og Ólafur Þórðarson.
Guðjón Þórðarson, Atli Eðvaldsson og Ólafur Þórðarson koma allir til greina sem næsti þjálfari hjá færeyska úrvalsdeildarliðinu NSÍ frá Runavík sem er í þjálfaraleit og er með Íslandsvininn Jens Martin Knudsen sem einn af starfsmönnum sínum.

Jens Martin Knudsen, spilaði og þjálfaði Leiftur á Íslandi á sínum tíma, og hann er í viðtali við Magnús Má Einarsson á vefsíðunni fótbolti.net í dag.

„Við vorum í viðræðum við Pétur Pétursson en hann gat ekki komið í ár vegna fjölskyldumála," sagði Jens Martin Knudsen við Fótbolta.net en þessi starfsmaður NSÍ í dag segir að mikill áhugi sé hjá NSÍ að fá íslenskan þjálfara.

„Við höfum mikinn áhuga á að fá íslenskan þjálfara. Heitustu löndin í fótboltanum í Evrópu í dag eru Ísland og Belgía," sagði Jens. Trygvi Mortensen þjálfari NSÍ frá 2014 til 2015.

Jens Martin segir að Atli Eðvaldsson, Guðjón Þórðarson og Ólafur Þórðarson komi núna til greina í starfið sem og danskur þjálfari.

Guðjón þjálfaði síðast Grindavík sumarið 2012, Atli þjálfaði síðast Aftureldingu sumarið 2014 og Ólafur þjálfaði síðast Víking Reykjavík en var látinn fara um mitt síðasta sumar. Guðjón og Atli hafa báðir þjálfað íslenska A-landsliðið og Ólafur var þjálfari 21 árs landsliðsins á sínum tíma.



NSÍ frá Runavík endaði sjö stigum á eftir Færeyjameisturum B36 frá Þórshöfn en liðið vann 16 af 27 deildarleikjum tímabilsins. NSÍ fékk líka silfur í bikarnum þar sem liðið tapaði 3-0 fyrir Víkingi í úrslitaleiknum.

NSÍ hefur einu sinni orðið færeyskur meistari eða árið 2007 en liðið vann bikarinn 19986 og 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×