Körfubolti

Kanínurnar töpuðu aftur á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Kárason í leik með íslenska landsliðinu á Eurobasket.
Axel Kárason í leik með íslenska landsliðinu á Eurobasket. Vísir/EPA
Svendborg Rabbits, eina Íslendingaliðið í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta, tapaði í kvöld með 27 stigum á heimavelli, 100-73, í 6. umferð deildarinnar.

Þetta var annað tap Svendborg Rabbits í röð á heimavelli en liðið tapaði fyrir Israel Martin (fyrrum þjálfara Tindastóls) og lærisveinum hans í Bakken Bears í leiknum á undan.

Landsliðsmaðurinn Axel Kárason spilar með liði Svendborg Rabbits og landsliðsþjálfarinn Craug Pedersen þjálfar Kanínurnar og honum til aðstoðar er Arnar Guðjónsson.

Leikmönnum Svendborg Rabbits til vorkunnar þá eru þarna á ferðinni tvö af bestu liðum deildarinnar sem eru bæði tapalaus til þess á tímabilinu.

Axel Kárason var með 7 stig og 7 fráköst í leiknum í kvöld en hann spilaði í rúmar 25 mínútur og hitti úr 1 af 3 skotum sínum og 4 af 8 af vítunum.

Svendborg Rabbits tapaði fyrsta leikhlutanum 27-22 en var komið fimmtán stigum undir í hálfleik, 52-37, eftir að Horsens-liðið vann annan leikhlutann 25-15. Axel skoraði fimm stig í fyrri hálfleiknum þar sem hann nýtt öll skotin sín, eitt þriggja stiga skot og tvö víti.

Annar slakur leikhluti þýddi að leikmenn Horsens voru búnir að auka muninn í 23 stig, 77-54, fyrir lokaleikhlutann. Í lokin munaði síðan 27 stigum á þessum tveimur liðum.  

Svendborg Rabbits hefur unnið þrjá leiki og tapað þremur leikjum í fyrstu sex umferðunum og er um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×