Körfubolti

Jón Arnór var hræddur um að finna ekki leikgleðina aftur eftir EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson á ferðinni á EM í Berlín.
Jón Arnór Stefánsson á ferðinni á EM í Berlín. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson segist ennþá vera að jafna sig eftir Evrópumótið í síðasta mánuði þar sem íslenska körfuboltalandsliðið steig sín fyrstu skref meðal bestu körfuboltaþjóða Evrópu. Jón Arnór fékk samning í hendurnar eftir síðast leik Íslands á Eurobasket.

Jón Arnór var í stuttu viðtali við karfan.is í dag þar sem hann fer aðeins yfir stöðuna hjá sér en hann er nú að hefja nýtt tímabil með spænska úrvalsdeildarliðinu Valencia.

Jón Arnór hefur verið slæmur í hnénu í haust og hann er ekki orðinn góður af þeim meiðslum. "Hnéð er að angra mig enda æfingaálagið gríðarlegt á undirbúningstímabilinu. Við fögnum þegar því lýkur," sagði Jón Arnór við karfan.is.

Jón Arnór gerði þriggja mánaða samning til að byrja með en býst við því að klára tímabilið með Valencia-liðinu.

„Ég held það hafi mikið að segja með framhaldið hvernig ástandið á hnénu verður. Þeir hinsvegar hafa talað og tala alltaf eins og ég sé að fara klára árið með þeim. En það þarf þá að taka ákvörðun um hvort ég fari í speglun og svo framvegis, það er óhjákvæmilegt ef ég á að geta klárað tímabilið," sagði Jón Arnór í viðtalinu.

Jón Arnór stóð sig mjög vel á Evrópumótinu þar sem gríðarlega mikil ábyrgð var á hans herðum. Jón var með 13,6 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum fimm.

„EM situr vissulega  ennþá í manni. Ég var á tímabili orðinn hræddur um að finna ekki leikgleðina aftur eftir mótið. Það er búið að vera mjög erfitt að peppa sig upp fyrir æfingaleiki undanfarið en þetta er allt að koma. Opnunarleikurinn í gær var góður þar sem liðið var kynnt og stemningin skemmtileg þá kom fiðringurinn í magann aftur. " sagði Jón Arnór í viðtalinu en það má lesa það allt hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×