Körfubolti

Frábær endasprettur Hlyns og Drekanna kom of seint í Norrköping

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson og Pau Gasol.
Hlynur Bæringsson og Pau Gasol. Vísir/Valli
Hlynur Bæringsson og félagar í Sundsvall Dragons náðu ekki að fylgja eftir sigri í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar þegar liðið heimsótti sterkt lið Norrköping Dolphins í öðrum leik sínum í kvöld.

Norrköping Dolphins, sem var að spila sinn fyrsta leik á tímabilinu, vann leikinn með fjögurra stiga mun, 73-69. Drekarnir lentu mikið undir en tókst að koma sér inn í leikinn með góðri þriggja stiga skotnýtingu í seinni hálfleiknum.

Hlynur var með fjórtán stig, níu fráköst og tvær stoðsendingar í leiknum en hann hitti úr 3 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Hlynur spilaði allar 40 mínúturnar í leiknum.

Það gekk ekkert inn í teig hjá Sundsvall í leiknum og liðið var með mun betri skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna (40 prósent) en utan hennar (31 prósent).

Leikmenn Norrköping gáfu tóninn strax í byrjun með því að vinna fyrsta leikhlutann 24-13 og þeir voru síðan tólf stigum yfir í hálfleik, 45-33.

Norrköping komst fjórtán stigum yfir í upphafi seinni hálfleiksins, 47-33, en næstu sjö stig voru skoruð af leikmönnum Drekanna sem komu muninum niður í fimm stig.

Norrköping gerði hinsvegar nær út um leikinn með því að skora átta síðustu stig þriðja leikhlutans og var þrettán stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 58-45.

Sundsvall minnkaði muninn aftur niður í átta stig eftir þrist frá Hlyni og munurinn var aðeins fimm stig þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir.

Það var því spenna á lokamínútunum en Hlynur minnkaði muninn í tvö stig, 71-69, með því að setja niður tvö víti 45 sekúndum fyrir leikslok. Hlyni og félögum tókst ekki að vinna upp muninn þrátt fyrir frábæran endasprett sem þýddi fyrsta tapið á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×