Fótbolti

Lars: Það er svo auðvelt að vinna með þessum strákum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck með öðrum í starfsliði Íslands þegar þjóðsöngurinn var spilaður.
Lars Lagerbäck með öðrum í starfsliði Íslands þegar þjóðsöngurinn var spilaður. Vísir/Valli
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska landsliðsins, var vissulega brosmildur eftir sigurinn á Hollandi í undankeppni EM í kvöld en þessi reyndi Svíi tók stærsta einum sigri Íslands frá upphafi á fótboltavellinum samt með sínu þjóðþekkta jafnaðargeði.

„Mér líður auðvitað mjög vel eftir svona sigur því það er svolítið extra að ná að vinna hér í Hollandi," sagði Lars Lagerbäck.

„Strákarnir spiluðu mjög vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Það hjálpaði okkur auðvitað að þeir misstu mann af velli með rautt spjald en um leið urðu strákarnir svolítið passívir og þá sérstaklega í lok leiksins," sagði Lars.

„Það er samt mjög góður leikur og frábært að ná að vinna Holland hér eins og við gerðum það. Þeir fengu nokkur skotfæri í lokin en fyrir utan það stjórnuðum við leiknum mjög vel," sagði Lars.

„Auðvitað er alltaf hægt að spila betur en ég var mjög sáttur með spilamennsku liðsins. Hollendingarnri náðu samt að halda boltanum manni færri í seinni hálfleik. Við þurftum að halda einbeitingu allan leikinn. Það er því alltaf erfitt að spila á móti þeim," sagði Lars.

„Það verður ekkert partý hjá strákunum til að fagna þessum sigri. Leikmenn eiga bara að borða og drekka rétt í kvöld til þess að ná góðri endurheimt svo að við getum klárað dæmið á sunnudaginn," sagði Lars.

„Ég hef heyrt að eitt stig nægi okkur á sunnudaginn sem er vissulega mjög gott en við ætlum okkur öll þrjú stigin á móti Kasakstan," sagði Lars.

„Við erum auðvitað mjög ánægðir með svona sigur en við erum líka mjög sáttir með hvernig liðið hefur spilað þessa undankeppni. Það er svo auðvelt að vinna með þessum strákum. Þess vegna líður mér kannski enn betur en vanalega," sagði Lars að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×