Fótbolti

Ísland gæti spilað leik á EM 17. júní

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það var fjör í gær og það verður fjör í júní á næsta ári.
Það var fjör í gær og það verður fjör í júní á næsta ári. vísir/vilhelm
Dregið verður til riðlakeppni EM 2016 í fótbolta þann 12. desember næstkomandi, en þar verður Ísland í pottinum í fyrsta sinn.

Strákarnir okkar tryggðu sæti sitt á sínu fyrsta stórmóti með markalausu jafntefli gegn Kasakstan í gærkvöldi, en liðið er efst í A-riðli undankeppninnar með 19 stig eftir átta leiki.

Alls verða 24 þjóðir á EM á næsta ári, en verið er að fjölga þeim úr 16. Þær skipta sér niður á sex fjögurra liða riðla.

Það má búast við mikilli stemningu á meðal stuðningsmanna Íslands sem fara til Frakklands og væntanlega verður stemningin ekki minni hér á landi.

Svo gæti farið að Ísland spili leik á EM þann 17. jún, sjálfan þjóðhátíðardag Íslendinga. Þá ætti að vera þokkalegasta stemning á vellinum og víðsvegar um landið þar sem fólk kemur saman til að horfa á leikinn.

Öruggasta leiðin til að spila leik 17. júní er að dragast í D-riðil, en báðir leikir þess riðils verða spilaðir þann dag. Annar leikur E-riðils fer reyndar einnig fram 17. júní þannig helmingslíkur eru á leik á þjóðhátíðardaginn verði strákarnir í E-riðli.

Eina sem er ljóst núna er að gestgjafar Frakklands verða í A-riðli og verða Evrópumeistarar Spánverjar í efsta styrkleikaflokki.


Tengdar fréttir

Biðin er loksins á enda

Íslenska karlalandsliðið er komið áfram á stórmót í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögunni en jafntefli gegn Kasakstan á Laugardalsvelli í gærkvöldi dugði strákunum okkar til að tryggja sér farseðilinn á EM 2016 í Frakklandi. Eftir erfiðar 90 mínútur braust út gríðarlegur fagnaður í leikslok.

England, Tékkland og svo litla Ísland

Þjóðirnar sem búnar eru að tryggja sig á EM hafa 24 sinnum tekið þátt í lokakeppni EM þrátt fyrir að nýliðar Ísland séu í hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×