Fótbolti

Enn og aftur baulað á Pique í landsleik vegna pólitískra skoðanna hans

Tómas þór Þórðarson skrifar
Gerard Pique er ekki vinsæll hjá Madrídingum.
Gerard Pique er ekki vinsæll hjá Madrídingum. vísir/getty
Sergio Ramos, miðvörður Real Madrid og spænska landsliðsins, vill að stuðningsmenn spænska liðsins hætti að baula á Gerard Pique, kollega sinn hjá Barcelona og samherja í landsliðinu.

Pique er allt annað en vinsæll hjá Spánverjum í Madríd þar sem hann er mikill talsmaður sjálfstæðis Katalóníu. Á hann var enn og aftur baulað í 2-0 sigri Spánverja gegn Slóvökum síðastliðinn föstudag.

„Við vitum öll hvernig Pique er. Við getum ekki breytt honum núna og það þýðir ekkert að ræða það hvort hann hafi hegðað sér alltaf á réttan hátt undanfarin ár,“ sagði Ramos á blaðamannafundi í gær.

„Við erum allir spænskir og spilum fyrir okkar land. Það hjálpar engum að baula. Við spilum fyrir landið okkar, Spán, og þurfum að standa saman. Pique leggur sig allan fram á vellinum.“

„Þegar við spilum fyrir Spán gerum við alltaf okkar best og því minna sem við tölum um þetta ákveðna málefni því betra. Annars sjáum við bara til þess að þetta komi upp aftur,“ sagði Sergio Ramos.

Spánn er í fínni stöðu í sínum riðli og getur sama og tryggt sér farseðilinn á EM 2016 með sigri á Makedóníu í kvöld. Evrópumeistararnir þurfa þó að bíða fram í október til að fagna sætinu, annað en Íslendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×