Fótbolti

Birkir Bjarna bætir við sig fimmta tungumálinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir fagnar markinu gegn Lech Poznan.
Birkir fagnar markinu gegn Lech Poznan. Vísir/Getty
Birkir Bjarnason segir að honum líka lífið vel í Sviss eftir flutningana frá Ítalíu í sumar. Birkir leikur með Basel sem hefur farið vel af stað í deildinni þótt liðinu hafi skrikað fótur í forkeppni Meistaradeildar.

„Mér líður mjög vel í Sviss. Ég er búinn að koma mér vel fyrir, hef spilað vel og liðið líka,“ segir Birki. Basel hefur unnið alla sjö leiki sína og er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.

Hins vegar er liðið úr leik í Meistaradeildinni án þess að hafa tapað leik. Liðið gerði 1-1 jafntefli á útivelli gegn Maccabi Tel Aviv í síðari leiknum eftir 2-2 jafntelfi heima. Ísraelska liðið fór áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

„Það var mjög svekkjandi, sérstaklega ef þú skoðar þessa tvo leiki,“ segir Birki augljóslega svekktur. Nú sé hins vegar ekkert annað í stöðunni en að einbeita sér að Evrópudeildinni.

Sigurmarkið gegn Lech Poznan

Birkir hefur verið inn og út úr liðinu frá því hann kom frá Pescara í sumar. Hann hefur byrjað þrjá leiki í deildinni og tvisvar komið inn á sem varamaður. Þá opnaði hann markareikning sinn fyrir Basel í 1-0 sigri gegn Lech Poznan í forkeppni Meistaradeildar.

„Svissneska deildin er mjög svipuð þeirri ítölsku. Auðvitað er sú ítalska sterkari en leikstíllinn og kerfin eru svipuð,“ segir Birkir. Hann ræðir sem fyrr við blaðamenn á íslensku þrátt fyrir að hafa búið meirihluta ævi sinnar utan Íslands. Fyrst í Noregi, svo Belgíu og Ítalíu áður en Sviss varð lendingin.

„Það eru þó nokkrir í liðinu sem tala ítölsku þannig að ég nota bæði ítölsku og ensku - já og norsku,“ segir Birkir. Tungumálin eru því orðin fjögur sem hann getur talað og það fimmta á leiðinni.

„Ég fer að byrja að læra þýsku.“


Tengdar fréttir

Lars: Alltaf slæmt að missa góða leikmenn

Landsliðsþjálfarinn var að vonum svekktur eftir að í ljós kom að Emil Hallfreðsson getur ekki tekið þátt í leik liðsins gegn Hollandi á fimmtudaginn.

„Verðum að notfæra okkur að pressan er á þá“

Birkir Bjarnason, hárprúði kantmaður landsliðsins, segir að á góðum degi geti okkar menn lagt hvaða þjóð sem er að velli. Pressan sé á Hollendingum fyrir leikinn á fimmtudag í A-riðli undankeppni EM 2016.

Landsliðið græddi á klúbbsreglunni í Cardiff City

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, segist vera mjög bjartsýnn að geta spilað á móti Hollandi á fimmtudaginn kemur. Aron Einar æfði með íslenska liðinu í dag og góð hvíld frá helginni kom þar sterk inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×