Íslenski boltinn

Annað tap Þróttar í röð | KA fjarlægist toppliðin

Ingvi þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Helgi tryggði Þórsurum dýrmætan sigur á Þrótti.
Jóhann Helgi tryggði Þórsurum dýrmætan sigur á Þrótti. vísir/daníel
Þróttur tapaði sínum öðrum leik í röð í 1. deildinni þegar Þór lagði toppliðið að velli, 2-1, á Þórsvelli í dag.

Rafn Andri Haraldsson kom Þrótti í 1-0 á 40. mínútu og þannig var staðan fram á 79. mínútu þegar varamaðurinn Gunnar Örvar Stefánsson jafnaði metin með sínu fimmta deildarmarki í sumar.

Það var svo Jóhann Helgi Hannesson kom skoraði sigurmark Þórsara átta mínútum fyrir leikslok.

Stigin þrjú koma Þór upp fyrir erkifjendurna í KA sem gerðu 1-1 jafntefli við Fram á Framvellinum í Úlfarsárdal.

KA-menn, sem tjölduðu miklu til fyrir tímabilið, eru nú sjö stigum frá Pepsi-deildarsæti og þurfa heldur betur að gefa í ef þeir ætla að ná markmiði sínu að spila í deild þeirra bestu á næsta ári.

Ævar Ingi Jóhannesson kom KA yfir á 22. mínútu með sínu 10. marki í sumar en Ingiberg Ólafur Jónsson tryggði Fram stig þegar hann jafnaði metin á 77. mínútu.

Tveir leikmenn fengu að líta rauða spjaldið í leiknum. Hilmar Trausti Arnarsson, vinstri bakvörður KA, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 80. mínútu og 10 mínútum síðar fauk Alexander Aron Davorsson, framherji Fram, einnig af velli.

Frammarar eru í 10. sæti deildarinnar með 12 stig, fjórum stigum stigum frá fallsæti. Fram hefur ekki unnið sigur í fjórum síðustu leikjum sínum.

Fyrr í dag gerðu BÍ/Bolungarvík og Selfoss 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×