Íslenski boltinn

Spjaldaglaðasti dómari færeysku deildarinnar dæmir leik Fjölnis og FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Færeyski dómarinnr fær vonandi vinnufrið í Grafarvoginum.
Færeyski dómarinnr fær vonandi vinnufrið í Grafarvoginum. Vísir/Daníel
Færeyingurinn Eiler Rasmussen mun dæma leik Fjölnis og FH í Pepsi-deildinni sem fer fram á sunnudagskvöldið. Þetta kemur fram á heimasíðu KSÍ.

Eiler Rasmussen er 38 ára gamall síðan í maí og verður hann við störf hér á landi næstu daga og dæmir tvo leiki. Eiler dæmir fyrst leik KV og Njarðvíkur í 2. deild karla í kvöld, föstudaginn 26. júní og svo leik Fjölnis og FH í Pepsi-deild karla.

Þessi dómaraskipti eru hluti af verkefni norrænu knattspyrnusambandanna varðandi samstarf í dómaramálum.

Dagfinn Forná dæmdi leik Fylkis og Víkings í Pepsi-deildinni í fyrra (fór 1-1) og Ívar Orri Kristjánsson dæmdi leik B68 frá Tóftum og Víkings í færeysku deildinni.

Eiler Rasmussen hefur dæmt þrettán leiki í færeysku deildinni á þessu tímabili og enginn dómari í deildinni hefur gefið fleiri spjöld. Rasmussen hefur lyft gula spjaldinu 63 sinnum og því rauða fimm sinnum.

Hann dæmdi síðast leik B36 Þórshöfn og KÍ Klaksvík á sunnudagskvöldið var og þá fóru átta gul spjöld á loft hjá honum þar af fimm þeirra á heimamenn í B36 frá Þórshöfn. B36 Þórshöfn skoraði fyrra mark sitt í 2-1 sigri úr víti.

Rasmussen hefur dæmt í færeysku deildinni síðan 2008 og á að baki 147 leiki í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×