Íslenski boltinn

Hvað gera laskaðir Fjölnismenn gegn toppliðinu?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fjölnismenn fagna marki.
Fjölnismenn fagna marki. vísir/vilhelm
Þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla í dag. Topplið FH sækir Fjölnismenn heim, taplausir Blikar fara til eyja, KR og Leiknir mætast á Alvogen-vellinum og Skagamenn fara á Hlíðarenda.

Breiðablik, sem hefur ekki tapað leik í Pepsi-deildinni það sem af er tímabilinu, heimsækir næst neðsta lið deildarinnar, ÍBV. Eyjamenn náðu í gott stig gegn Val í síðasta leik á meðan Blikar gráta líklega að hafa einungis fengið eitt stig í toppslagnum gegn FH.

Valsmenn eru í fimmta sætinu með fimmtán stig og geta lyft sér upp í það þriðja tapi Fjölnir og KR í dag. ÍA vann Keflavík 4-2 í síðasta leik og er nú komið fjórum stigum frá fallsæti.

KR kom sér aftur á beinu brautina í Pepsi-deildinni með 1-0 sigri á Stjörnunni í síðustu umferð á meðan Leiknismenn hafa ekki verið að kroppa í mörg stig í síðustu leikjum. Þeir hafa fengið eitt stig úr síðustu fjórum leikjum.

Lokaleikur kvöldsins hefst svo klukkan 20:00, en þá mætast Fjölnir og FH í Grafarvogi. Fjölnismenn hafa misst Daniel Ivanovski og Emil Pálsson á stuttum tíma og auk þess er Þórir Guðjónsson í banni. FH er á toppnum með 20 stig, en Fjölnismenn eru í því fjórða með sautján.

Allir leikir dagsins verða að sjálfsögðu lýst beint í Boltavaktinni, en sjónvarpsleikur umferðarinnar er leikur Keflavíkur og Stjörnunnar sem fer fram á morgun. Pepsi-mörkin verða svo klukkan 22:00 annað kvöld þar sem umgjörði verður krufin til mergjar.

Leikir dagsins:

17.00 ÍBV - Breiðablik (Hásteinsvöllur)

19.15 Valur - ÍA (Vodafonevöllurinn)

19.15 KR - Leiknir R. (Alvogenvöllurinn)

20.00 Fjölnir - FH (Fjölnisvöllur)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×