Körfubolti

Hetja Cleveland er sá launalægsti og keyrir um á Mözdu

Matthew Dellavedova.
Matthew Dellavedova. vísir/getty
Ástralinn Matthew Dellavedova hefur mjög óvænt slegið í gegn í úrslitum NBA-deildarinnar. Hann hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu. Það sáu fáir fyrir. Þessi strákur er launalægstur allra í báðum liðum úrslitanna.

Hann er með 108 milljónir króna í árslaun. Félagar hans keyra um á Lamborghini og Ferrari en Ástralinn keyrir um á Mözdu.

Hann var ekki valinn í nýliðavalinu árið 2013 en Cleveland reyndi að fá hann strax eftir að valinu lauk. Þáverandi framkvæmdastjóri félagsins, Chris Grant, hafði mikla trú á stráknum.

Það var örlítil barátta um strákinn en á endanum samdi hann til tveggja ára við Cleveland. Hann var öruggur um 13 milljónir króna í laun en ekkert annað en það.

Þetta er nú farin að líta út eins og bestu kaup i sögu Cleveland eftir enn einn stórleik Dellavedova í úrslitunum. Í nótt var hann með 20 stig og frábær í vörn. Hann var svo þreyttur eftir leikinn að hann var fluttur á spítala með mikla krampa. Alvöru stríðsmaður sem verður klár í næsta leik.

Ferill hans hjá Cleveland byrjaði þó skelfilega þar sem hann gat ekkert í sumardeildinni og var ömurlegur á æfingum. Forráðamenn Cleveland munu líklega seint viðurkenna það en líklega hugsuðu þeir þá hvort þeir hefðu sturtað 13 milljónum í klósettið.

Margir vildu losa sig við leikmanninn en ekki Grant. Dellavedova fór því hvergi. Því sjá menn ekki eftir í dag. Síðustu leikir hafa gert það allt þess virði.

„Strákarnir elska Delly enda spilar hann með hjartanu. Það er ekki hægt annað en að elska þennan gaur," sagði David Blatt, þjálfari Cleveland.

NBA

Tengdar fréttir

Annar sigur Cleveland í röð | Myndbönd

Cleveland Cavaliers er komið í 2-1 í einvíginu gegn Golden State Warriors eftir fimm stiga sigur, 96-91, í þriðja leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×