Fótbolti

Kolbeinn: Við áttum skilið að vinna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vísir/Ernir
„Þetta var algjörlega ótrúlegur sigur," segir Kolbeinn Sigþórsson sem skoraði sigurmark leiksins gegn Tékkum í kvöld.

„Að sjá hvernig við komum til baka eftir að hafa lent undir var frábært. Við létum markið ekki á okkur fá og vorum enn þá betri eftir að hafa fengið markið á okkur. Við áttum skilið að skora og vinna."

Kolbeinn var á því að íslenska liðið hefði verið sterkara liðið á flestum sviðum í kvöld.

„Mér fannst þeir vera hræddir við líkamlega styrkinn hjá okkur. Maður fann að þeir báru virðingu fyrir okkur. Við vildum þetta meira og börðumst hvern einasta bolta. Þetta Tékkalið er drullugott en við náðum að loka frábærlega á þá.

„Markið þeirra kveikti enn frekar í okkur og það sýnir eina ferðina enn karakterinn í okkar liði. Það er ekkert grín að koma til baka á móti svona sterku liði."

Kolbeinn var afar yfirvegaður er hann skoraði markið sem innsiglaði stigin þrjú.

„Ég beið aðeins með að skjóta og lét hann koma á móti mér. Það var frábært fyrir mig að skora enda langt síðan ég skoraði í landsleik. Það er frábært að við séum komnir í toppsætið og við viljum halda því. Við erum ekki komnir á EM samt. Ekki fyrr en við erum komnir þangað," sagði Kolbeinn og glotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×