Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Ef menn nenna þessu ekki fáum við ekkert út úr leikjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Páll.
Rúnar Páll. vísir/ernir
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var ómyrkur í máli eftir tap Íslandsmeistaranna fyrir Fjölni á Samsung-vellinum í kvöld.

"Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Það eru mín fyrstu viðbrögð," sagði Rúnar en Stjarnan hefur nú tapað tveimur deildarleikjum í röð með markatölunni 6-1.

"Ég er gríðarlega óánægður með leik minna manna í kvöld, eins einfalt og það nú er. Við vorum eftir á í öllum stöðum og það vantaði alla stemmningu, vinnslu og baráttu í liðið. Ef menn nenna þessu ekki fáum við ekkert út úr leikjunum."

Fjölnismenn settu Stjörnumenn undir mikla pressu sem þeir áttu í miklum vandræðum með að leysa.

"Það sást greinilega, við vorum í tómum vandræðum í leiknum. Við sköpuðum okkur ekki fá færi nema kannski í blálokin þegar staðan var orðin slæm.

"Við erum í einhverri lægð núna og þurfum að gera betur," sagði Rúnar en hvað þurfa hans menn að gera til að komast aftur á sigurbraut?

"Vörnin var eins og gatasigti í fyrri hálfleik. Þeir hefðu getað verið 4-0 yfir í hálfleik. Vörnin er ekki nógu góð og menn eru ekki að gera það sem fyrir þá er lagt.

"Ef menn nenna ekki að hreyfa sig, færa sig til og vinna fyrsta og annan boltann gengur þetta ekki upp. Þá töpum við leikjum," sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×