KR tekur á móti FH í kvöld í stórleik 1. umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta en leikurinn fer fram á KR-vellinum í Frostaskjóli.
KR-ingar byrjuðu ekki að spila á grasinu sínu fyrr en 2. júní í fyrra en núna setja þeir nýtt met á vellinum með því að spila fyrsta heimaleikinn 4. maí.
Aldrei áður hefur leikur farið fram fyrr í maí á KR-vellinum en gamla metið var 6. maí frá því árin 2012 og 2013.
KR-ingar hafa spilað heimaleiki sína á KR-vellinum frá því seinni hluta sumars 1984 og þetta er því 32. tímabil KR-inga í Frostaskjólinu.
Í fyrra byrjaði KR-liðið ekki að spila á sínum heimavelli fyrr en í júní og það hafði þá ekki gerst í tuttugu ár að leikur fór ekki fram á KR-vellinum í maí.
Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá heimaleiki KR-inga sem hafa farið fram á KR-vellinum snemma í maímánuði en KR hefur byrjað 10 af síðustu 32 tímabilum sínum á KR-vellinum fyrir 15. maí.
"Fyrsti" fyrsti leikur á KR-vellinum undanfarin 32 tímabil:
4. maí 2015: Leikur við FH í kvöld
6. maí 2012: 2-2 jafntefli við Stjörnuna
6. maí 2013: 2-1 sigur á Stjörnunni
8. maí 2011: 1-1 jafntefli við Keflavík
10. maí 2008: 3-1 sigur á Grindavík
10. maí 2009: 2-1 sigur á Fjölni
11. maí 2010: 2-2 jafntefli við Hauka
13. maí 1985: 4-3 sigur á Þrótti
14. maí 2006: 0-3 tap fyrir FH
14. maí 2007: 1-2 tap fyrir Keflavík
Leikur KR og FH í kvöld hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst hálftíma fyrir leik.

