Íslenski boltinn

Skrýtið og taktlaust: „Ég er ekkert sátt með niður­stöðuna“

Aron Guðmundsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val.
Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val. Vísir/Pawel

Það kom Fann­dísi Friðriks­dóttur á óvart að vera ekki boðinn nýr samningur hjá kvenna­liði Vals í fót­bolta. Hún er ekki sátt með viðskilnaðinn við félagið og segir nýaf­staðið tíma­bil hafa verið skrýtið og takt­laust.

Fann­dís, sem hefur nú lagt skóna á hilluna, var einn af ljósu punktunum í liði Vals á annars afar erfiðu tíma­bili fyrir liðið þar sem að erfið mál utan vallar hjálpuðu ekki til. Fann­dís lýsir tíma­bilinu sem skrýtnu og takt­lausu en eftir það var henni ekki boðinn áfram­haldandi samningur.

Kom það þér á óvart að þér skyldi ekki hafa verið boðinn áfram­haldandi samningur?

„Já mjög. Ég held að flestir geti verið sammála um að það sé mjög skrýtið að vera valin besti leik­maður liðsins en fá síðan ekki áfram­haldandi samning. Burtséð frá því hvort ég hafi ætlað að hætta eða ekki, ég var ekki búin að segja það. Já það var skrýtið.“

Hvernig er þá viðskilnaðurinn við félagið?

„Lífið heldur bara áfram. Ég er ekki að fara erfa þetta við neinn. Ég átti frábæran tíma með stelpunum þarna, það er ekki það, en ég er ekkert sátt með það að þetta hafi verið niður­staðan þeirra, mér finnst hún skrýtin, en ég er hætt í fót­bolta núna. Nenni ekki að pæla í því meira.“

Var ákveðið taktleysi

Fann­dís er þriðji leikja­hæsti leik­maður efstu deildar með 278 leiki og 129 mörk. Hún varð fimm sinnum Ís­lands­meistari á sínum ferli, bæði með Breiða­bliki og Val. Síðasta tíma­bili var eitt af þeim erfiðustu sem hún upp­lifði á sínum ferli.

„Ég veit ekki hvernig ég á að orða það öðru­vísi en að þetta var bara svolítið skrýtið. Það langar öllum það sama, sér­stak­lega þegar að maður er í Val þá langar öllum að vinna og það ætla sér allir að vinna. En það var ákveðið takt­leysi, ég held að það sé orðið sem lýsi þessu. Þetta var skrýtið og takt­laust, við vorum ekki í takt. Við vorum öll á leiðinni á sama stað en á mis­munandi hátt. Svona er þetta bara stundum.“

Var erfitt að halda í jákvæðnina þegar að illa gekk á tíma­bilinu?

„Alveg stundum en ein­hvern veginn hafði maður sitt stuðnings­net í eldri leik­mönnum Vals eins og Elísu Viðars, Örnu Sig, Natöshu og fleirum. Við hjálpuðumst að við þetta. Minntum okkur reglu­lega á að við værum í fót­bolta af því að það er gaman. Það var alltaf gaman á æfingu þótt að leikirnir hafi farið eins og þeir fóru þá var samt alltaf gaman þannig lagað. Maður gleymdi sér stundum og fór að tuða en þá var næsti maður bara búinn að pikka í mann og minna mann á að halda í jákvæðnina, halda áfram og gera það sem við getum til að reyna snúa þessu við.“

Tekur undir orð Péturs

Pétur Péturs­son, fyrr­verandi þjálfari kvenna­liðs Vals, tjáði sig um stöðuna hjá félaginu í færslu á dögunum og vitnaði þar í færslu stjórnar knatt­spyrnu­deildar félagsins þar sem sagði að það hefði oft ein­kennt ís­lenskan fót­bolta að tjalda til einnar nætur.

Pétur sagði stjórn Vals lítillækka bæði karla- og kvenna­lið vals undan­farin ár og þeim stór­kost­lega árangri sem náðst hefði. Að segja að Valur hafi tjaldað til einnar nætur væri virðingar­leysi við þá leik­menn, þjálfara, stjórn og sjálf­boðaliða sem bjuggu til þann árangur sem hefði náðst. Þá sagði hann sorg­legt hvernig komið væri fram við þá leik­menn sem hefðu borið merki Vals hátt uppi.

Fann­dís tekur undir ýmis­legt sem kom fram í færslu Péturs, hennar gamla þjálfara hjá Val.

Hefur þú áhyggjur af stöðu liðsins eða félagsins

„Ég ætla ekki að segja áhyggjur en ég tek svolítið undir það sem Pétur segir. Það verður að bera virðingu fyrir því sem hefur verið gert þarna áður. Það má ekki gleyma því. Stefna að því er bara gott og blessað og gangi þeim sem allra best. En áhyggjur hef ég ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×