Fótbolti

Ron­aldo á nær­buxunum lætur Elon Musk efast um sjálfan sig

Aron Guðmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo, ein skærasta stjarna knattspyrnusögunnar.
Cristiano Ronaldo, ein skærasta stjarna knattspyrnusögunnar. Vísir/getty

Segja mætti að mynd sem hinn fertugi Cristiano Ronaldo, ein skærasta stjarna knattspyrnusögunnar, birti af sér eftir sánu á samfélagsmiðlinum X hafi farið eins og eldur í sinu um netheima. 

Ronaldo, sem spilar fyrir sádi-arabíska liðið Al-Nassr og er talinn einn allra besti leikmaður knattspyrnusögunnar, er í hörku formi líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd sem hann birti á X-inu sem og á Instagram. 

Portúgalinn hugsar einstaklega vel um sig og er ekki eins og fólk er flest þegar það er orðið 40 ára gamalt. Athugasemdir notenda X við mynd Ronaldo eru sumar kostulegar. Einn þeirra sem skrifar athugasemd þar er sjálfur eigandi X, Elon Musk.

„Mér sýnist ég þurfa að fara hreyfa mig,“ skrifar Musk. Annar segist munu eiga erfitt með að útskýra það fyrir börnunum sínum að þarna sé ekki á ferðinni mynd sem sé unnin af gervigreindinni.

Ronaldo hefur verið einkar sigursæll á sínum ferli og unnið titla með stærstu félagsliðum heims á borð við Manchester United, Real Madrid og Juventus. Þá hefur hann unnið stóra titla með landsliði Portúgal og eru einstaklingsverðlaunin sem hann hefur unnið sér inn einnig mjög mörg. 

Í nýlegu viðtali sem kappinn fór í hjá breska fjölmiðlamanninum Piers Morgan sagðist hann kannski munu hætta knattspyrnuiðkun eftir eitt til tvö ár. En telja verður nokkuð víst að hann setji ótrauður stefnuna á að taka þátt á komandi heimsmeistaramóti í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada á næsta ári. 

Heimsmeistaratitillinn er enn stærsti bikarinn sem Ronaldo hefur ekki enn unnið á glæstum ferli, en hann varð Evrópumeistari með Portúgal árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×