Körfubolti

Obama mætti ekki að horfa á frænku Michelle spila vegna hótunar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Barack Obama ræðir við mág sinn Craig Robison á leik Leslie síðastliðinn laugardag.
Barack Obama ræðir við mág sinn Craig Robison á leik Leslie síðastliðinn laugardag. vísir/getty
Leslie Robinson, litla frænka Michelle Obama, eiginkonu Baracks Obama Bandaríkjaforseta, var hótað fyrir körfuboltaleik sem hún spilaði í NCAA-mótinu í gær.

Leslie, sem er dóttir Craigs Robinson, bróður Michelle, spilar með Princeton Tigers sem framherji en hún er á fyrsta ári í skólanum.

USA Today greinir frá því að íþróttadeild háskólans í Maryland, þar sem leikur Princeton og Maryland Terrapins fór fram, hafi borist átta mínútna löng skilaboð á símsvara.

Þar sagði kona frá því að maður væri að keyra um háskólalóðina með Glock-skammbyssu og tengdi komu hans við körfuboltaleikinn og Michelle.

Stúlkunni var sjálfri ekki sagt frá skilaboðunum en þjálfari Princeton-liðsins var látinn vita.

Obama er mikill körfuboltaáhugamaður og mætti á fyrsta leik Princeton í NCAA-úrslitakeppninni þar sem Leslie reyndar spilaði ekki mínútu. Vegna hótunarinnar mætti forsetinn þó ekki á leikinn í gær.

Öryggisgæsla var gríðarleg í kringum leikinn vegna hótunarinnar og ekki síður vegna þess að Sonia Sotomayor og Elena Kagen, hæstaréttardómarar í Bandaríkjunum, voru á leiknum.

Princeton tapaði leiknum, 85-70, en þetta var fyrsta tap liðsins á leiktíðinni. Leslie kom ekkert við sögu í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×