Fótbolti

Alfreð: Það skiptir ekki máli hvernig við vinnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason og félagar í íslenska karlalandsliðinu í fótbolta ætla sér sigur og ekkert annað í leiknum á móti Kasakstan á morgun.

Íslenska liðið spilar þarna fimmta leik sinn í undankeppni EM 2016 en íslensku strákarnir hafa náð í 9 stig af 12 mögulegum til þessa.

„Ég býst við leik þar sem við erum meira með boltann og þurfum að stjórna leiknum. Við þurfum samt að hafa gott jafnvægi í liðinu þannig að við séum ekki að fá of mikið af skyndisóknum á okkur," segir Alfreð en hvernig spilar lið Kasaka.

„Ég veit ekki alveg þeir ætli að spila 4-4-2 eða 3-5-2. Það er öðruvísi að brjóta niðuir 3-5-2 þar sem að þeir þá alltaf með þrjá hafsenta miðsvæðis. Við teljum okkur vera með leiðir þar sem að við getum opnað þá. Ég held að þetta verði svipað og Lettaleikurinn og því mikið þolinmæðisverk," segir Alfreð.

„Það skiptir ekki máli hvernig við vinnum. Við ætlum að vinna og svo koma okkur héðan. Það er markmiðið," sagði Alfreð í léttum tón.

Alfreð er sammála félögum sínum í íslenska liðinu að þetta sé skyldusigur á Astana leikvanginum á morgun.

„Ef við ætlum að fara alla leið þá þurfum við að vinna Kasakstan, Lettland bæði heima og úti. Það eru tólf stig sem við þurfum að taka," segir Alfreð. Íslenski hópurinn hefur spilað lengi saman og þekkist orðið mjög vel.

„Við erum búnir að fara í gegnum skemmtilega og slæma tíma saman. Við þekkjum alla flóruna og við ætlum að gera ennþá skemmtilegri hluti saman þegar við förum til Frakklands," sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×