Oft hafa menn tekist á Alþingi, en þingmenn verið ágætir vinir utan dagskrár. En, eftir fréttir gærdagsins, að Gunnar Bragi Sveinsson hafi tilkynnt einhliða, án samráðs við Alþingi, að aðildarviðræðum við ESB væri lokið af hálfu ríkisstjórnarinnar og þar með Íslands. Margir þingmenn, og allir í stjórnarandstöðunni, líta á þetta sem atlögu að þingræðinu.
Píratar ætla ekki að mæta. „Við upplifum algjöran trúnaðarbrest við forseta þingsins og í þokkabót er maður varla í stuði til að fagna með þinginu miðað við atburði gærdagsins,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata.
Hann veit ekki hver staðan er innan annarra þingflokka. „Ég þori ekki að fullyrða neitt fyrir þeirra hönd, en það kæmi mér stórlega á óvart ef einn einasti stjórnarandstöðumaður mætti. Reyndar gæti ég trúað því að mæting stjórnarliða verði óvenju dræm líka.”
Helgi Hrafn á kollgátuna, samkvæmt Nútímanum ætla þingmenn minnihlutaflokkanna, Pírata, Bjartrar framtíðar, VG og Samfylkingarinnar ætla að sniðganga þingveislu

Vísi er ekki kunnugt um hvort hagyrðingar eru margir sem nú sitja á þingi, en húsið verður opnað kl. 19.30. Fordrykkur verður borinn fram undir léttri músík. „Gengið verður til borðs um kl. 20.15. Skemmtiatriði verða söngur og gamanmál. Er borð verða upp tekin verður stiginn dans. Með málsverði eru borin fram borðvín, kaffi og koníak á eftir. Eftir matinn verður barinn opnaður þar sem hver og einn borgar fyrir sig.“
Ekki segir meira til um gleðskapinn, hvorki fylgir matseðill né tíundað hver skemmtiatriðin verði. Hver alþingismaður sem þekkist boðið greiðir 5000 krónur og verður það gjald tekið af launareikningi hans við næstu útborgun.
Það stefnir sem sagt í að fámennt verði; stjórnarliðarnir með forseta Íslands. Þeir sem fagna helst aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru Framsóknarmenn, því málið er umdeilt innan Sjálfstæðisflokksins; en helstu foringjar Framsóknarmanna eru reyndar staddir í útlöndum síðast þegar spurðist: Gunnar Bragi í Eistlandi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að fagna fertugsafmæli sínu í útlöndum.
Í glænýrri Facebook-færslu Össurar Skarphéðinssonar meðfylgjandi, þingmanns og fyrrverandi utanríkisráðherra, má glögglega sjá hug þingmanna til ríkisstjórnarinnar - hann er þungur.