Körfubolti

Jakob búinn að skipta í EM-gírinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson.
Jakob Örn Sigurðarson. Vísir/Valli
Það vakti athygli á dögunum þegar karlalandsliðsþjálfari Íslands í körfubolta,  Craig Pedersen, tilkynnti það opinberlega að Jakob Örn Sigurðarson væri með öruggt sæti í EM-hóp hans í haust en frammistaða Jakobs síðan þá hefur ekki verið síður athyglisverðari.

Jakob hefur síðan spilað tvo leiki með Sundsvall Dragons og farið á kostum í þeim báðum. Báðir eru í hópi tveggja stigahæstu leikja hans í sænsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Jakob skoraði 25 stig í sigri á ecoÖrebro í gærkvöldi og hafði skorað 26 stig í sigri á KFUM Nässjö í síðustu viku.

Það er þó hittni hans fyrir utan þriggja stiga línuna sem hefur verið framar öllu öðru í þessum tveimur leikjum.

Jakob hitti úr 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum í gærkvöldi og 5 af 10 þriggja stiga skotum í leiknum á undan.

Jakob er því með 57 prósent þriggja stiga nýtingu og sex þriggja stiga körfur að meðaltali í leik síðan að Craig Pedersen gaf það út að hann yrði með Íslandi í Berlín næsta haust.

Jakob var ekki með íslenska landsliðinu síðasta sumar en hafði verið fastamaður í liðinu árin á undan. Hann tók sér hvíld frá landsliðsverkefnunum 2014 en er klár í að hjálpa íslenska landsliðinu á fyrsta stórmóti sínu frá upphafi.


Tengdar fréttir

Íslendingarnir í stuði í Svíþjóð

Jakob Örn Sigurðarson fór á kostum er Íslendingaliðið Sundsvall Dragons valtaði yfir KFUM Nåssjö, 92-72, í sænska boltanum í kvöld.

Craig Pedersen: Vel ekki endilega þá fjórtán bestu á EM

Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, ætlar að setja saman rétta hópinn fyrir lokakeppni Evrópumótsins í körfubolta og þar verða því ekki endilega fjórtán bestu leikmenn landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×