Körfubolti

Axel Kárason tók 20 fráköst í mikilvægum sigri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Axel Kárason átti stórgóðan leik.
Axel Kárason átti stórgóðan leik. vísir/daníel
Axel Kárason, landsliðsmaður í körfubolta, og félagar hans í Værlöse unnu sigur á botnliði Aalborg Vikings, 85-75, í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Værlöse er í mikilli fallbaráttu við Hoersholm, en bæði lið voru með átta stig fyrir leikinn. Víkingarnir frá Álaborg virðast ekki eiga mikla von en þeir eru enn án sigurs eftir 17 leiki á botni deildarinnar.

Axel og félagar þurftu þó framlengingu til að leggja Víkingana í kvöld eftir að staðan var jöfn, 69-69, eftir venjulegan leiktíma.

Salman Khan kom Værlöse í 72-69 með þriggja stiga körfu og eftir að gestirnir frá Álaborg brutu af sér í næstu sókn jók David Knudsen muninn í fimm stig með sniðskoti, 74-69. Axel Kárason gekk svo endanlega frá Álaborgarliðinu með þristi í næstu sókn.

Axel var frábær í leiknum, en hann skoraði ellefu stig og tók 20 fráköst á þeim 42 mínútum sem hann spilaði. Með sigrinum náði liðið tveggja stiga forystu á Hoersholm í fallbaráttunni en það á leik til góða.

Craig Pedersen og Arnar Guðjónsson fögnuðu sigri í kvöld.vísir/vilhelm
Svendborg Rabbits, liðið sem landsliðsþjálfararnir Craig Pedersen og Arnar Guðjónsson þjálfa, vann svo stórsigur á Randers Cimbria, 96-60, eftir að vera yfir í hálfleik, 56-24.

William Paul var stigahæstur hjá Kanínunum með 18 stig og tók að auki 10 fráköst, en Marinus Mouboe skoraði 14 stig og tók 11 fráköst.

Svendborg komst með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig, en það er búið að vinna tólf leiki og tapa sex. Bakken Bears og Horsens eru á toppnum með 28 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×