Körfubolti

Axel setti nýtt þriggja stiga met á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Kárason.
Axel Kárason. Vísir/Daníel
Axel Kárason átti frábæran leik með Værlöse BBK í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í gær en íslenski landsliðsmaðurinn skoraði þá 30 stig og tók 13 fráköst.

Frábær frammistaða Axel lagði grunninn að 91-76 útisigri Værlöse BBK á Randers Cimbria. Axel setti niður átta þriggja stiga skot í leiknum og það hefur enginn annar leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar afrekað á þessu tímabili.

Axel skorað sjö af átta þristum sínum í 1. og 3. leikhluta en þá vann Værlöse-liðið samtals með 21 stigs mun.

Axel nýtti 8 af 12 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði því 24 af 30 stigum sínum með þriggja stiga skotum. Hann þurfti jafnframt aðeins 17 skot til þess að skora þessi 30 stig sín.

Bandaríkjamaðurinn Darryl Partin átti áður metið í dönsku deildinni á leiktíðinni en hann hafði þrisvar sinnum náð því að skora sjö þrista í einum leik.

Axel hefur verið í stuði í nokkrum leikjum í vetur hann hafði í tvígang skorað fimm þrista í einum leik. Alls hefur Axel skorað 2,1 þrist að meðaltali í leik og nýtt 36,4 prósent skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna.

Þristar Axels Kárasonar eftir leikhlutum í leiknum:

1. leikhluti - 3 þristar (3 skot)

2. leikhluti - 0 þristar (1 skot)

3. leikhluti - 4 þristar (5 skot)

4. leikhluti - 1 þristur (3 skot)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×