Enn berast fregnir af líðan ökuþórsins Michael Schumacher sem hlaut alvarlega heilaáverka eftir skíðaslys í frönsku Ölpunum fyrir rúmu ári síðan.
Ítalska blaðið Corriera della Serra hefur eftir sínum heimildum, eins og Telegraph hefur greint frá, að Schumacher geti tjáð tilfinningar með augunum sínum.
„Stundum rennur tár niður vanga Michael. Hann grætur þegar hann heyrir raddir barna sinna eða eiginkonu,“ sagði í frétt ítalska blaðsins.
„Michael er með augun opin en starir oft út í tómið. Hann hefur undanfarið getað borið kennsl á kunnuleg andlit fjölskyldumeðlima sinna en getur ekki haft samskipti við þá.“
„Hann talar ekki og getur ekki stjórnað eigin hreyfingum. Hann bregðst við utanaðkomandi áreiti en getur aðeins svarað rödd sem hann þekkir með augunum sínum.“
Þeir sem standa Schumacher næst verjast alla fregna af líðan hans og segja aðeins að hann eigi langt bataferli fram undan. Aðrir miðlar sem hafa greint frá bata Schumacher segja nú að hann geti setið uppréttr og virt fyrir sér útsýnið frá heimili hans við Genfarvatn í Sviss.
Talið er að Schumacher þurfi mörg ár til að ná fullum bata og er með öllu óvíst að það takist nokkru sinni.