Íslenski boltinn

Ítalir bíða eftir að sjá fögn Stjörnumanna

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Marta Carissimi leikur nú með Stjörnunni og heldur með sínu liði.
Marta Carissimi leikur nú með Stjörnunni og heldur með sínu liði. vísir/Arnþór
Marta Carissimi, leikmaður meistaraflokks kvennaliðs Stjörnunnar, lék með Inter á síðasta ári, en hún er mjög spennt fyrir leiknum sem fer fram á Laugardalsvelli á miðvikudaginn. Marta lék með Inter fyrir aðeins einu ári, en leikur í dag með mótherjum ítalska stórveldisins á Íslandi.

„Ég er spennt fyrir þessum leik þar sem þetta er skemmtileg tilviljun að ári eftir að ég spila fyrir Inter á sínum tíma leik ég með Stjörnunni en ég er frá Tórínó og ég er því ekki stuðningsmaður Inter,“ segir Marta í viðtali við Fréttablaðið.

Marta þekkir aðstoðarþjálfara Inter, en þeir hafa ekkert haft samband til þess að spyrjast fyrir um leikmenn Stjörnunnar.

„Þessi lið leika ekki saman líkt og hérna heima svo við æfðum ekki á sama stað og karlalið Inter. Maður þekkir samt alla því þetta eru allt stjörnur sem þurfa að fá allt það besta,“ sagði Marta létt en hún á ekki von á öðru en að leikmenn Inter vanmeti ekki Stjörnuna.

„Þeir vita nánast allt um þetta lið og þeir vita að þeir eru leikmenn Inter. Þeir vita að þetta verður ekki auðvelt en þeir vita jafnframt að ætlast er til að þeir vinni þetta nokkuð auðveldlega. Ítalskir fjölmiðlar þekkja Stjörnuna út frá fögnunum sem voru fyrir nokkrum árum og það býst enginn við því að þeir geti veitt Inter einhverja keppni.“

„Inter er stórveldi á heimsvísu og þeir gera kröfur um það að fara langt í öllum keppnum og það er gríðarleg pressa á leikmönnum Inter fyrir þennan leik,“ sagði Marta sem sagði að margir af ítölskum vinum hennar vonist til þess að Stjarnan skori í leikjunum til þess að leikmennirnir tækju fögnin frægu.

„Fyrstu dagana voru allir að tala um þessi fögn, ítalskir fjölmiðlar og íbúar Mílanó. Sumir töluðu jafnvel um að leikmenn Inter myndu valta yfir þá en ég hef fundið fyrir því að Ítalir vonast til þess að Stjarnan nái að skora.“

„Það eru margir sem eru búnir að deila fögnunum á samskiptamiðlunum og ég held að það sé óhætt að segja að allir vonist eftir því að Stjarnan skori og við fáum að sjá eitt fagn. Það trúir enginn að þeir séu hættir að gera þetta. Ég sagði þeim að þeir væru hættir þessu en þau vonast samt eftir því að þeir bjóði upp á eitt gott fagn,“ sagði Marta.

Marta er líkt og áður hefur verið nefnt frá Tórínó og mun því halda með Stjörnunni í leiknum á miðvikudaginn.

„Ég fer á leikinn og ég mun styðja Stjörnuna því ég spila með þeim. Ég vonast til þess að þeir nái góðum úrslitum. Svo mæti ég að sjálfsögðu daginn eftir og hvet íslenska landsliðið í leiknum gegn Danmörku,“ sagði Marta sem virðist vera yfir sig hrifin af íslenskum fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×