Skoðun

Niðurgreitt skyr til Evrópu?

Þórólfur Matthíasson skrifar
Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði vilja auka sölu á Evrópumarkaði á skyri framleiddu á Íslandi. Samtökin hafa óskað eftir að fá að flytja þangað 4.000 tonn tollfrjálst. Væru 4.000 tonn af skyri flutt til meginlands Evrópu jafngilti það því að 4-5% af mjólkurframleiðslu íslenskra kúabænda væru framleidd fyrir neytendur erlendis. Kallar á umhugsun og skoðun.

Hvað kostar mjólkin í skyrið?

Til að auka framleiðslu skyrs fyrir Evrópu þarf annaðhvort að skerða framboð mjólkurvöru til innlendra neytenda um 5% eða auka framleiðslu mjólkur um 5 milljónir lítra. Nú borga afurðastöðvar bændum um 83 krónur á lítrann og þeir fá að auki 45 krónur í beingreiðslur úr ríkissjóði á hvern lítra. Verðmæti 5 milljóna lítra af mjólk frá bændum er 630 milljónir króna, þar af eru beingreiðslur úr ríkissjóði 215 milljónir króna.

Skilaverð í Evrópu

Verðmæti skyrs í Evrópu ræðst á markaði í Evrópu, en ekki á skrifstofu við Bitruháls. Úr 5 milljónum lítra af mjólk fást 700 tonn af undanrennudufti og 200 tonn af smjöri. Ef íslenskar afurðastöðvar eiga að standast verðsamkeppni við erlendar mjólkurstöðvar mega þær ekki verðleggja skyrið í Evrópu hærra en svarar til hráefnisverðs í Evrópu. Þetta þýðir að skilaverð mjólkurinnar sem færi í Evrópu-skyr Mjólkursamsölunnar yrði um 420 til 450 milljónir króna. Beint tap af útflutningi 4.000 tonna af skyri til Evrópu yrði því 180 til 210 milljónir króna. Þá á eftir að áætla kostnað við nauðsynlega kynningar- og auglýsingaherferð sem væntanlega myndi hlaupa á nokkrum hundruðum milljóna króna yfir nokkurra ára tímabil!

Tapi velt á neytendur og skattgreiðendur?

Til að jafna reikninga afurðastöðva vegna taps af skyrútflutningi þyrfti að: a) hækka útsöluverð á mjólkurvöru til innlendra neytenda um 250-300 milljónir króna, eða b) lækka verð til bænda um 200-300 milljónir króna og/eða c) auka beingreiðslu úr ríkissjóði til bænda um 200-300 milljónir króna. Íslenskir neytendur og íslenskir skattgreiðendur eiga rétt á að Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði upplýsi þá um hverja þessara leiða Samtökin hugsa sér að fara til að fjármagna tap af útflutningi skyrs til Evrópu



Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×