Enski boltinn

Dzeko ætlar að fylla í skarð Agüero

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svo gæti farið að Sergio Agüero verði frá í allt að 6-8 vikur að sögn Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóra Manchester City.

Agüero er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán mörk og verður sárt saknað er City mætir Roma í Meistaradeild Evrópu í kvöld en þeir ensku þurfa á sigri að halda til að eiga möguleika á sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Edin Dzeko hefur sjálfur verið frá vegna meiðsla en er nú heill heilsu. Hann segist vera reiðubúinn að fylla í það skarð sem Agüero hefur skilið eftir sig.

„Ég er til staðar þegar liðið þarf á mér að halda og ég er ánægður með að vera kominn til baka,“ sagði Dzeko. „Þetta hefur ekki verið auðvelt en ég ætla að gera mitt allra besta til að skora mörk og hafa eitthvað jákvætt fram að færa fyrir liðið.“

„Það var mikið áfall fyrir okkur að missa Sergio enda búinn að skora mikið. Hann er okkar besti leikmaður ásamt David Silva.“

„Það er þó gott sjálfstraust í liðinu og gott andrúmsloft. Vonandi höldum við áfram að bæta okkur.“

City þarf að vinna Roma í kvöld og treysta á að CSKA Moskva vinni ekki Bayern München á sama tíma til að komast áfram í 16-liða úrslitin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×