Körfubolti

Drekarnir óstöðvandi - Haukur Helgi tryggði LF Basket sigur á útivelli

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson voru góðir í kvöld.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson voru góðir í kvöld. vísir/valli
Fátt virðist geta stöðvað Íslendingaliðið Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta þessa dagana, en það vann níunda sigurinn í röð í kvöld. Fórnarlamb Drekanna að þessu sinni var lið ecoÖrebro sem fékk fimmtán stiga skell í Sundsvall í kvöld, 93-78.

Íslendingarnir voru að vanda áberandi hjá Drekunum, en Jakob Örn Sigurðarson var stigahæstur hjá heimamönnum með 15 stig. Stóru mennirnir voru mjög öflugir og sá stærsti átti flottan leik. Risinn Ragnar Nathanaelsson spilaði tæpar 19 mínútur í kvöld og skoraði 13 stig og tók 8 fráköst.

Hlynur Bæringsson skoraði einnig 13 stig og tók að auki 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson skilaði 4 stigum, 3 fráköstum og 4 stoðsendingum á tæpum 13 mínútum.

Sundsvall byrjaði leiktíðina ekki nógu vel og vann aðeins tvo af fyrstu fjórum leik sínum í deildinni. Síðan þá hefur liðið unnið níu í röð sem fyrr segir og er komið í annað sæti deildarinnar með 22 stig. Það er jafnt Nörrköping Dolphins að stigum en á leik til góða á Höfrungana.

Sigurður Gunnar Þorsteinsson og félagar í Solna Vikings þurftu að sætta sig við annað tapið í röð í deildinni, en Víkingarnir lutu í gras gegn Kóngunum frá Södertëlje, 94-86, á heimavelli.

Siggi Þorsteins átti fínan leik og skoraði 13 stig og tók 7 fráköst á þeim 29 mínútum sem hann spilaði. Solna er með tólf stig í sjöunda sæti deildarinnar.

Haukur Helgi klikkaði ekki á vítalínunni undir lokin.vísir/vilhelm
Haukur Helgi Pálsson og hans menn unnu aftur á móti annan leikinn í röð kvöld þegar þeir lögðu Jämtland Basket að velli, 77-73. Þeir unnu Solna einmitt í síðustu umferð.

LF Basket var tíu stigum yfir, 75-65, þegar 33 sekúndur voru eftir, en gerðu heiðarlega tilraun til að kasta leiknum frá sér. Heimamenn í Jämtland skoruðu átta stig í röð og minnkuðu muninn í 73-75 með þriggja stiga körfu þegar tíu sekúndur voru eftir.

Þá gerðu gestirnir það eina rétta og settu boltann í hendurnar á Hauki Helga. Hann fékk tvö vítaskot sem hann nýtti og kom sínum mönnum í 77-73 þegar tíu sekúndur voru eftir og gekk frá leiknum.

Haukur Helgi hafði annars hægt um sig; skoraði sex stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar. LF Basket nú með 18 stig í sjötta sæti deildarinnar eftir níu sigra og sex töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×