Körfubolti

Elvar og Martin: Leikurinn hraðari hér en á Íslandi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Það er langt síðan við unnum þrjá leiki í röð, en mínir strákar unnu fyrir þessu. Þeir voru virkilega góðir,“ sagði Jack Perri, þjálfari LIU Blackbirds, eftir sigur liðsins á Florida International í bandarísku háskólakörfunni í nótt.

Svartþrestirnir byrjuðu tímabilið illa og töpuðu sex leikjum í röð, en eru nú búnir að vinna þrjá leiki í röð eftir sigurinn í nótt.

Sjá einnig:Elvar Már fór á kostum á heimavelli Brooklyn Nets | Myndband

Íslendingarnir Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson spiluðu mjög vel, sérstaklega Elvar sem fór hreinlega á kostum í Barcklays Center, heimavelli NBA-liðsins Brooklyn Nets.

Njarðvíkingurin skoraði 17 stig í leiknum, þar af tvær þriggja stiga körfur í röð þegar gestirnir frá Flórída voru byrjaðir á saxa á forskotið.

Elvar Már fór á kostum.vísir/getty
„Hann er með mikið sjálfstraust og það réttilega. Hann er virkilega hæfileikaríkur og góður körfubolta. Þessar þriggja stiga körfur voru okkur mikilvægar,“ sagði Jack Perri.

LIU skoraði tíu stig á móti tveimur þegar FIU var komið yfir í seinni hálfleik, 43-39, og tóku aftur völdin í leiknum.

„Við skoruðum þessi tíu stig þökk sé góðri vörn. Við stálum boltanum t.a.m. tvisvar. Þetta voru auðveldar körfur. Ég sjálfur var ekki að hitta til að byrja með en svo datt þetta inn,“ sagði Elvar Már.

Fjórir leikmenn í liði LIU skoruðu tíu stig eða meira og segir Martin Hermannsson mikil gæði vera í liðinu.

„Við erum með hæfileikaríka leikmenn sem geta allir spilað vel. Það er einn góður í einum leik og annar í þeim næsta. Það skiptir ekki máli hver það er á meðan við stöndum saman,“ sagði Martin.

Elvar Már hefur spilað mjög vel í fyrstu níu leikjum Brooklyn og verið allt í öllu í leik liðsins. Hann er nú búinn að skora yfir tíu stig í fjórum leikjum í röð.

„Það tók mig smá tíma að aðlagast hérna. Leikurinn hér er miklu hraðari en á Íslandi og leikmennirnir sterkari. Ég er að ná tökum á þessu,“ sagði Elvar og Martin tók undir orð góðvinar síns.

„Við fengum góða reynslu að spila með landsliðinu þar sem við spilum við stærri og sterkari stráka. Deildin hér en mun hraðari en heima og menn líkamlega sterkari og betri íþróttamenn,“ sagði Martin Hermannsson.

Hér að ofan má sjá blaðamannafundinn í heild sinni og brot úr leiknum má finna hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×