Körfubolti

Haukur skoraði meira en mótherjarnir í öðrum leikhlutanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson.
Haukur Helgi Pálsson. Vísir/Daníel
Haukur Helgi Pálsson og félagar hans í LF Basket unnu 18 stiga sigur á Borås Basket í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í síðasta leik sínum fyrir jól.

LF Basket vann leikinn 88-70 þrátt fyrir slæma byrjun en Borås-liðið vann fyrsta leikhlutann 25-16.

Haukur Helgi Pálsson hitti úr 4 af 6 skotum sínum og skoraði 12 stig en hann var í villuvandræðum og spilaði bara í 20 mínútur í þessum leik.

Haukur Helgi var sannkallaður 67 prósent maður í þessum leik því hann hitti úr 2 af 3 tveggja stiga skotum sínum, 2 af 3 þriggja stiga skotum sínum og 2 af 3 vítaskotum sínum.

LF Basket lenti eins og áður sagði níu stigum undir eftir fyrsta leikhlutann en vann annan leikhlutann 22-9 og leiddi í framhaldinu með fjórum stigum í hálfleik, 38-34.

Haukur Helgi átti heldur betur þátt í að koma sínum mönnum í gang og aftur inn í leikinn en hann skoraði stigi meira (10) en allt Borås-liðið í öðrum leikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×