Körfubolti

Svali í Madison Square Garden: Hingað vilja allir komast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Svali Björgvinsson fylgdist með þegar þeir Martin Hermannsson og Elvar Friðriksson léku með háskólaliði sínu, LIU, í hinni frægu íþróttahöll Madison Square Garden á dögunum.

LIU tapaði leiknum en fáir íslenskir íþróttakappar hafa spilað í þessari höll en eins og Svali benti sjálfur á í fréttinni gerði Pétur Guðmundsson það í tvígang er hann lék í NBA-deildinni.

„Það er ekki nóg að fara bara fram hjá einum leikmanni til að komast í galopið lay up eins og í deildinni heima,“ sagði Martin við Svala. „Það er ekkert gefið í þessu. Ef þú færð galopið skot þá er það bara kraftaverk.“

Elvar tók í svipaðan streng og sagði að þó svo að leikurinn virtist hægur þá væru leikmenn hraðari en gengur og gerist í íslensku deildinni.

„Mér finnst að ég og Martin megum vera áræðnari í sóknarleiknum. Við erum enn að finna okkur og það kemur með tímanum.“

„En þetta er allt öðruvísi. Skotklukkan er lengri og [þjálfarinn] kallar kerfin fyrir mann sem mér finnst hægja aðeins á leiknum. En samt finnst mér þetta hraðari en heima - þar var með hraðari leikmönnum en hér er maður með þeim hægari,“ sagði Elvar.

Sérstakur þáttur um þá Martin og Elvar verður sýndur á Stöð 2 Sport á jóladag en í niðurlagi fréttarinnar hafði Svali orð á því hversu magnað það væri að fá að spila í Madison Square Garden í hjarta New York-borgar.

„Hér komast 20 þúsund manns fyrir. Hér gerast allir stóru hlutirnir. Ef fólk á gítar eða stuttbuxur og góða körfuboltaskó þá vilja allir vera hérna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×