Körfubolti

Kristófer Acox spilar í einni frægustu íþróttahöll Bandaríkjanna í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox.
Kristófer Acox. Vísir/Vilhelm
Kristófer Acox og félagar hans Furman-háskólaliðinu mæta svo sannarlega á stóra sviðið í kvöld þegar liðið heimsækir Mike Krzyzewski og lærisveina hans í Duke.

Leikurinn í kvöld fer fram í Cameron Indoor Stadium, heimavelli Duke, en það er ein frægasta íþróttahöll Bandaríkjanna ekki síst vegna ótrúlegrar stemmningar á leikjum Duke-liðsins sem gerir það að verkum að þetta er einn erfiðast útileikurinn í bandaríska háskólaboltanum.

„Fyrir þremur árum spilaði ég sex minútur í leik i Iceland Express deildinni, á morgun byrja ég á móti Duke í Cameron Indoor Stadium," skrifaði Kristófer Acox á twitter-síðu sína.

Kristófer Acox hefur byrjað tímabilið af krafti en hann er frákastahæsti leikmaður liðsins með 8,0 fráköst í leik og sá annar stigahæsti með 9,3 stig í leik. Kristófer hefur nýtt 75 prósent skota sinna í fyrstu þremur leikjunum.

Mike Krzyzewski, oftast kallaður "Coach K", er einn frægasti þjálfari allra tíma en auk þess að þjálfa lið Duke þá stýrir hann einnig bandaríska landsliðinu.

Duke-liðið er búið að vinna fimm fyrstu leiki tímabilsins og í aðalhlutverki hjá liðinu er hinn 211 sm hái Jahlil Okafor sem er strax á fyrsta ári orðinn einn öflugasti háskólaleikmaður Bandaríkjanna. Okafor er með 15,8 stig, 8,0 fráköst og 60 prósent skotnýtingu í fyrstu fimm leikjum sínum með Duke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×