Körfubolti

Drekarnir nálægt því að kasta sigrinum frá sér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson var traustur í kvöld.
Jakob Örn Sigurðarson var traustur í kvöld. vísir/valli
Íslendingaliðið Sundsvall Dragons var nálægt því að kasta frá sér öruggum sigri gegn Umeå BSKT í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Drekarnir réðu lögum og lofum á vellinum fyrstu 30 mínúturnar. Þeir voru yfir í hálfleik, 53-44, og höfðu 18 stiga forystu fyrir síðasta leikhlutann, 81-63.

En þá gaf Sundsvall eftir og Umeå setti í fimmta gír. Það minnkaði muninn niður í eitt stig, 94-93, þegar fimmtán sekúndur voru eftir. Þá settu Drekarnir boltann í hendurnar á Jakobi Erni Sigurðarsyni sem skoraði úr tveimur vítum og það sama gerði liðsfélagi hans í næstu sókn.

Lokatölur, 98-93, fyrir Sundsvall sem er nú búið að vinna fjóra leiki í röð og alls sex af fyrstu tíu leikjum sínum í deildinni.

Jakob Örn var stigahæstur Sundsvall-liðsins með 23 stig, Hlynur Bæringsson skoraði 13 stig og tók 8 fráköst og Ægir Þór Steinarsson bætti við átta stigum auk þess sem hann gaf fimm stoðsendingar.

Risinn Ragnar Nathanaelsson spilaði sjö og hálfa mínútu í leiknum og skoraði tvö stig og tók þrjú fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×