Enski boltinn

Lögreglan látin vita af kynþáttaníði gegn Toure

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samtök sem beita sér gegn kynþáttaníði í knattspyrnu hafa látið lögreglu vita af kynþáttaníði sem Yaya Toure, leikmaður Manchester City, varð fyrir á Twitter-síðu sinni.

Toure hafði verið óvirkur á samskiptamiðlinum Twitter í nokkurn tíma en virkjaði aðgang sinn að síðunni aftur í gær. Hann óskaði fylgjendum sínum gleðilegs mánudags en ekki leið langur tími þar til að aðrir byrjuðu að svívirða hann.

„Yaya Toure hafði verið á Twitter í aðeins nokkrar klukkustundir þegar honum bárust skelfilegar svívirðingar,“ sagði talsmaður samtakanna Kick It Out.

Yaya Toure var beittur kynþáttaníði af stuðningsmönnum CSKA Moskvu í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í fyrra og var rússneska félaginu gert að loka hluta stúku sinnar í næsta leik á eftir. City tekur á móti CSKA Moskvu í Meistaradeildinni annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×