Körfubolti

Fyrsta tapið hjá Sundsvall Dragons - 38 íslensk stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Daníel
Íslendingaliðið Sundsvall Dragons varð að sætta sig við fjögurra stiga tap á útivelli á móti Borås Basket, 83-87, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Borås Basket hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína en þetta var fyrsta tap Drekanna.

Hlynur Bæringsson var næststigahæstur hjá Sundsvall Dragons með 18 stig og 9 fráköst en Jakob Örn Sigurðarson skoraði 11 af 14 stigum sínum í fyrri hálfleiknum. Ægir Þór Steinarsson var einnig í byrjunarliðinu og var með 4 stig og 5 fráköst. Ragnar Nathanielsson var síðan með 2 stig og 2 fráköst.

Borås Basket tók frumkvæðið strax í fyrsta leikhlutanum og hélt því út allan leikinn. Borås Basket var 21-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með þriggja stiga forskot í hálfleik, 43-40. Borås-liðið vann síðan þriðja leikhlutann 23-13 og lifði á því forskoti út leikinn.

Sundsvall Dragons átti góðan endasprett og tókst að minnka muninn niður í þrjú stig en nær komust þeir ekki. Hlynur fór mikinn á lokakafla leiksins en frábær frammistaða hans dugði því miður ekki.

Þetta var fyrsta tap Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í vetur en liðið vann fyrsta leikinn sinn á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×