Íslenski boltinn

Lars: Tyrkir eru næstbestir í riðlinum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. vísir/daníel
Lars Lagerbäck, annar landsliðsþjálfara karla í fótbolta, hefur aðra tilraun sína ásamt Heimi Hallgrímssyni að koma Íslandi á stórmót á þriðjudagskvöldið þegar strákarnir okkar hefja leik í undankeppni EM 2016.

Mótherjinn er Tyrkland sem spilaði vináttuleik gegn Dönum í vikunni. Þar komu Tyrkirnir aðeins á óvart.

„Þjálfari Tyrkja breytti skipulaginu sem var það eina sem kom á óvart. Við höldum að hann hafi notað leikmenn sem byrja ekki á þriðjudaginn,“ sagði Lagerbäck á blaðamannafundi í dag.

„Við munum fara í gegnum allt sem þeir hafa gert og eftir æfingu munum við fara vel með strákunum yfir leik Tyrkja. Það er samt mikilvægast hvernig við spilum.“

Tyrkir byggja leik sinn ekki upp á mikilli liðsheild, að sögn Svíans, heldur treysta þeir á gæði einstaklinga í liðinu. En þau eru mikil.

„Þeir eru með sterka einstaklinga sem eru góðir með boltann. Sóknir þeirra eru byggðar upp á einstaklingsframtökum. Þeir vilja sækja og keyra bakverðina upp völlinn,“ sagði Lagerbäck.

„Í vörninni verjast þeir meira maður á mann en með svæðisvörn. Aðalatriðið fyrir okkur er að vinna einvígin maður gegn manni úti á vellinum. Ef það tekst þá eigum við möguleika á að vinna leikinn.“

Auk Tyrkja er Ísland í riðli með Lettum, Kasakstan, Hollandi og Tyrklandi. Holland náði bronsi á HM í Brasilíu og þykir langsigurstranglegast í riðlinum. En hvaða lið er næstbest?

„Við, Tyrkir og Tékkar erum frekar jafnir. En ég myndi segja að Tyrkir eru með næstbesta liðið í riðlinum. Þeir eru búnir að skipta um þjálfara sem ég hef mætt áður. Hann er reynslumikill sem hjálpar þeim. Það verður gaman samt að sjá hvernig Holland bregst við nýjum þjálfara og kemur til leiks eftir að komast svona langt á stórmóti,“ sagði Lars Lagerbäck.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×