Íslenski boltinn

Umfjöllun: Fylkir - Selfoss | Selfoss í úrslitaleikinn

Kristjana Arnarsdóttir á Fylkisvelli skrifar
Guðmunda Brynja Óladóttir og stöllur hennar leika til úrslita.
Guðmunda Brynja Óladóttir og stöllur hennar leika til úrslita. Vísir/vilhelm
Selfyssingar eru komnir í úrslit Borgunarbikars kvenna í fyrsta skipti í sögu félagsins eftir sigur á Fylkisstúlkum. Staðan var 2-2 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að framlengja.

Ekkert mark var hins vegar skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar gerðu Selfoss-stúlkur betur og skoruðu úr þremur spyrnum af fjórum á meðan Fylkir brenndi af öllum sínum vítum. 

Selfoss fór mun betur af stað í leiknum og Blake Ashley Stockton kom liðinu yfir strax á 8. mínútu leiksins. Carys Hawkins tókst þó að jafna leikinn fyrir Fylki á 38. mínútu og staðan orðin 1-1. 

Töluvert meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik. Blake Ashley Stockton var þó aftur á ferðinni á 48. mínútu, þá barst boltinn til hennar eftir góða hornspyrnu Hrafnhildar Hauksdóttur og tókst henni að smella boltanum í slánna og inn. 

Anna Björg Björnsdóttir jafnaði leikinn fyrir Fylki á 81. mínútu. Þá vann hún boltann vel á miðjunni, lék á varnarmann Selfoss og skaut föstu skoti yfir Alexu Gaul í markinu. 

Leikar stóðu 2-2 eftir venjulegan leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar. Hvorugt liðið náði þó að setja boltann í netið. 

Selfoss hafði svo betur í vítaspyrnukeppninni með þrjú skoruð mörk á meðan Fylkisstúlkum tókst ekki að setja boltann framhjá Alexu Gaul í markinu.

Selfoss mætir því annað hvort Stjörnunni eða Breiðabliki en liðin leika í seinni undanúrslitaleik Borgunarbikarsins kl. 19.15 annað kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×