Íslenski boltinn

Auðunn hættir eins og Zidane

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Samsett
Auðunn Blöndal, fjölmiðlamaður og leikmaður Létti í 4. deildinni, hefur lagt skóna á hilluna - aftur.

Auðunn hefur leikið með Létti undanfarin tvö sumur en skrifaði á Twitter í morgun að nú væri komið að kveðjustund.

„Mér fannst gaman í fyrra og þá hafði ég góðan tíma í þetta. En núna finn ég að mig langar meira til að spila golf en að fara á æfingu,“ sagði Auðunn í samtali við Vísi.

„Okkur hefur gengið vel. Við erum í öðru sæti, strákarnir eru skemmtilegir og Rikki [Ríkharð Óskar Guðnason] er góður þjálfari. Þetta hefur verið hrikalega gaman,“ bætti hann við.

Auðunn lék sinn síðasta leik gegn Skallagrími í gærkvöldi en Borgnesingar unnu leikinn, 4-2. Auðunn fékk beint rautt spjald í uppbótartíma.

„Ég tók tvítugan gutta og sparkaði hann niður,“ segir Auðunn en eins og kunnugt er fékk franska stórstjarnan Zinadine Zidane rautt spjald í úrslitaleik HM 2006 fyrir að skalla Marco Materazzi í bringuna.

„En ólíkt honum þá talaði þessi drengur ekkert illa um móður mína eða neitt slíkt. Það var bara ég sem var pirraður og hann var svo óheppinn að standa næst mér.“

„Við tókumst svo í hendur eftir leikinn og þetta endaði allt á góðu nótunum,“ bætti hann við.

Auðunn lék á sínum tíma með Skallagrími í 1. og 2. deild karla og sagði að það hefði því verið viðeigandi að spila sinn síðasta leik á Íslandsmóti gegn sínu gamla félagi frá Borgarnesi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×