Svarthvítur draumur Friðrika Benónýsdóttir skrifar 28. október 2013 12:00 Mánasteinn eftir Sjón Bækur: Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til Sjón JPV-útgáfa Að hefja lestur á nýrri skáldsögu eftir Sjón er dálítið eins og að leggja í siglingu yfir ævintýrahaf. Maður veit að eitthvað óvænt og jafnvel ógnvekjandi bíður manns en treystir því að máttur myndmáls og tungutaks skili manni heilum í höfn eftir einstaka upplifun. Mánasteinn bregst ekki þeim væntingum og strax á fyrstu síðu er lesandinn staddur í aðstæðum sem hafa ekki áður sést í íslenskri skáldsögu. Drengurinn Máni Steinn er að sinna „kóna“ eins og hann kallar þá sem kaupa af honum kynlífsþjónustu um leið og drunurnar í mótorhjóli músunnar hans gefa tóninn fyrir Kötlugos, spænsku veikina og fullveldi landsins, atburði sem kollvarpa þeim heimi sem hann býr í og gera hann í fyrsta sinn að þátttakanda í samfélaginu. Sagan spannar fáeinar vikur haustið 1918, frá upphafi Kötlugoss 12. október til fullveldisdagsins 1. desember. Örlagaríkari hafa nokkrar vikur tæpast verið í íslenskri sögu og með því að horfa á atburðina með augum drengs á jaðri samfélagsins tekst Sjón að setja þessa atburði í algjörlega nýtt samhengi. Þegar ofan á bætist að drengurinn Máni Steinn hefur fram að þessum tíma einkum samsamað sig heimi kvikmyndanna sem hann sér oft í viku í bíóhúsum bæjarins og sér því heiminn dálítið súrrealískum augum verður til magnaður kokkteill örmynda í stíl svarthvítra kvikmynda frá upphafsárum síðustu aldar, kokkteill sem kippir lesandanum inn í áður ókannaða veröld sem hefur sterka skírskotun í nútímann. Bygging sögunnar tekur mið af áðurnefndum kvikmyndum, stuttar myndir úr lífi drengsins sem raðast saman í mósaíkmynd af lífi og dauða í bæ í helgreipum eldgoss og mannskæðrar pestar. Inn í er fléttað ýmsum staðreyndum um umræðuna á þessum tíma, helstu uppsláttum dagblaðanna, lýsingum á söguþræði kvikmyndanna sem drengurinn heillast af, óráðskenndum draumum og daglegu stumri bæjarbúa. Hver myndin er annarri sterkari og það er ekki lífsins leið að slíta sig frá þessum heimi fyrr en síðasta blaðsíðan hefur verið lesin. Jafnvel þá er lesandinn algjörlega á valdi sögunnar og dögum saman poppa upp í hugann myndir af aðstæðum úr bókinni, textabrot, tilsvör og hnausþykk ógnin sem yfir öllu vofir. Þá er bókin gripin á ný, lesnir stakir kaflar, smjattað á orðum, andað að sér andblænum og andvarpað yfir valdinu sem skáldið hefur á máli, stíl og myndbyggingu. Þetta er ekki bók sem maður les einu sinni og gleymir svo að mestu, Mánasteinn verður lesinn aftur og aftur.Niðurstaða: Meistaralega fléttuð saga með ógleymanlegum myndum, mögnuðum stíl og einstakri söguhetju. Lestrarupplifun ársins. Gagnrýni Mest lesið Andrew Garfield á Íslandi Lífið Margmenni í Bláfjöllum Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Bækur: Mánasteinn – Drengurinn sem aldrei var til Sjón JPV-útgáfa Að hefja lestur á nýrri skáldsögu eftir Sjón er dálítið eins og að leggja í siglingu yfir ævintýrahaf. Maður veit að eitthvað óvænt og jafnvel ógnvekjandi bíður manns en treystir því að máttur myndmáls og tungutaks skili manni heilum í höfn eftir einstaka upplifun. Mánasteinn bregst ekki þeim væntingum og strax á fyrstu síðu er lesandinn staddur í aðstæðum sem hafa ekki áður sést í íslenskri skáldsögu. Drengurinn Máni Steinn er að sinna „kóna“ eins og hann kallar þá sem kaupa af honum kynlífsþjónustu um leið og drunurnar í mótorhjóli músunnar hans gefa tóninn fyrir Kötlugos, spænsku veikina og fullveldi landsins, atburði sem kollvarpa þeim heimi sem hann býr í og gera hann í fyrsta sinn að þátttakanda í samfélaginu. Sagan spannar fáeinar vikur haustið 1918, frá upphafi Kötlugoss 12. október til fullveldisdagsins 1. desember. Örlagaríkari hafa nokkrar vikur tæpast verið í íslenskri sögu og með því að horfa á atburðina með augum drengs á jaðri samfélagsins tekst Sjón að setja þessa atburði í algjörlega nýtt samhengi. Þegar ofan á bætist að drengurinn Máni Steinn hefur fram að þessum tíma einkum samsamað sig heimi kvikmyndanna sem hann sér oft í viku í bíóhúsum bæjarins og sér því heiminn dálítið súrrealískum augum verður til magnaður kokkteill örmynda í stíl svarthvítra kvikmynda frá upphafsárum síðustu aldar, kokkteill sem kippir lesandanum inn í áður ókannaða veröld sem hefur sterka skírskotun í nútímann. Bygging sögunnar tekur mið af áðurnefndum kvikmyndum, stuttar myndir úr lífi drengsins sem raðast saman í mósaíkmynd af lífi og dauða í bæ í helgreipum eldgoss og mannskæðrar pestar. Inn í er fléttað ýmsum staðreyndum um umræðuna á þessum tíma, helstu uppsláttum dagblaðanna, lýsingum á söguþræði kvikmyndanna sem drengurinn heillast af, óráðskenndum draumum og daglegu stumri bæjarbúa. Hver myndin er annarri sterkari og það er ekki lífsins leið að slíta sig frá þessum heimi fyrr en síðasta blaðsíðan hefur verið lesin. Jafnvel þá er lesandinn algjörlega á valdi sögunnar og dögum saman poppa upp í hugann myndir af aðstæðum úr bókinni, textabrot, tilsvör og hnausþykk ógnin sem yfir öllu vofir. Þá er bókin gripin á ný, lesnir stakir kaflar, smjattað á orðum, andað að sér andblænum og andvarpað yfir valdinu sem skáldið hefur á máli, stíl og myndbyggingu. Þetta er ekki bók sem maður les einu sinni og gleymir svo að mestu, Mánasteinn verður lesinn aftur og aftur.Niðurstaða: Meistaralega fléttuð saga með ógleymanlegum myndum, mögnuðum stíl og einstakri söguhetju. Lestrarupplifun ársins.
Gagnrýni Mest lesið Andrew Garfield á Íslandi Lífið Margmenni í Bláfjöllum Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Katrín Tanja trúlofuð Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Áskorun Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira