Skoðun

Óvissa um niðurfærslu skulda

Össur Skarphéðinsson skrifar
Stefnuyfirlýsing nýju stjórnarinnar er að mörgu leyti athyglisverð – og fyrir sinn hatt prýðileg. Hún ber þó augljóslega með sér að í vöfflutúrunum tókst oddvitum hennar ekki að leiða í jörð ágreining um hvernig á að efna kosningaloforð Framsóknar um að lækka höfuðstól verðtryggðra skulda um 300 milljarða. Sigmundur Davíð sagði efndir þessa loforðs forsendu nýrrar ríkisstjórnar. Það ætti því að vera svartalágmark að hans eigin ríkisstjórn segi skýrt hvaða leið eigi að fara til að efna loforðið. Það er þó ekki gert í stefnuyfirlýsingunni.

Skýringin á því er óþægileg. Hún liggur í óleystum ágreiningi milli flokkanna um hvaða leið ber að fara. Fyrir kosningar margítrekaði Bjarni að hugmyndir Framsóknar væru óraunhæfar og leystu engan vanda. Í Kastljósi í síðustu viku var hann á svipuðum slóðum. Ný óvissa Þessi óleysti ágreiningur birtist nokkuð nakinn í stefnuyfirlýsingunni. Þar greinir ríkisstjórnin frá tveimur aðalleiðum til að bæta hlut skuldara – en getur ekki gert upp á milli þeirra! Í stað þess að eyða óvissu býr hún til nýja óvissu fyrir þá sem glíma við verðtryggðan skuldavanda.

Af ýmsum ástæðum efa ég ekki augnablik að Sigmundur Davíð hefur einlægan vilja til að efna loforðið. En hann gerði tvenn mistök: Í fyrsta lagi lagði hann upp í leiðangurinn án þess að útkljá ágreininginn við Sjálfstæðisflokkinn. Í öðru lagi lét hann svo fjármálaráðuneytið í hendur sjálfstæðismanna og þeir munu því ráða hvort, og þá hvernig, skuldaniðurfærsluleiðin verður farin.

Andstaðan innan þingflokks Sjálfstæðismanna við niðurfærsluleið Framsóknar er flestum ljós. Nú getur hann í ofanálag túlkað tvíbent orðalag stjórnarsáttmálans þannig að ekkert sé í gadda slegið milli flokkanna. Hann mun haga sér í samræmi við það. Eftir rómantíska hveitibrauðsdaga er því öldungis óvíst að við taki ástir samlyndra hjóna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×