Skoðun

Nýtt Ísland þarfnast nýrra flokka

Þórður Björn Sigurðsson skrifar
Enginn bjóst við að íhaldið og framsóknaríhaldið myndi vilja breyta stjórnarskránni. Á hinn bóginn gáfu vinstri flokkarnir sig út fyrir að ætla sér að gera það á kjörtímabilinu. Björt framtíð hoppaði svo á þann vagn.

Nú hefur komið í ljós, burtséð frá vilja einstakra þingmanna, að sem stjórnmálasamtök hafa vinstri flokkarnir ásamt Bjartri framtíð brugðist þjóðinni. Þjóðinni sem þeir kölluðu á vettvang þann 20. október 2012 til að safna pólitísku kapítali í sarpinn svo Alþingi mætti reka smiðshöggið á vinnu stjórnlagaráðs, stjórnlaganefndar og þjóðfundar.

Í stað þess að klára málið og samþykkja nýja stjórnarskrá á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs, eins og 67% landsmanna vilja, lúffa þau fyrir íhaldinu og framsóknaríhaldinu og samþykkja að læsa nánast Gömlu gránu og henda lyklinum! Þessu getuleysi vinstri flokkanna og Bjartrar framtíðar er rétt að halda til haga.

Framvegis skulum við reikna með að íhaldið og framsóknaríhaldið haldi áfram að berjast af harðfylgi gegn nýrri stjórnarskrá. Við skulum líka reikna með því að VG, Samfylkingunni og Bjartri framtíð sé fyrirmunað að hafa íhaldið og framsóknaríhaldið undir í þeirri glímu.

En þó að þessi orrusta hafi tapast er stríðið ekki búið. Í vor munum við ganga til kosninga. Í því sambandi skora ég á fólk að setja fjórflokkinn og Bjarta framtíð á bekkinn og hleypa nýjum flokkum inn á. Nýjum flokkum sem þora að leiða fram þjóðarvilja í stjórnarskrármálinu og öðrum brýnum hagsmunamálum alþýðu.




Skoðun

Sjá meira


×